Áskrifa

Í gær sagði Hjördís Kvaran Einarsdóttir  frá því í Facebook-hópnum Málspjall að í tíma hjá sér hefði nemandi þýtt „subscribe to my channel“ sem „áskrifaðu rásina mína“. Í umræðum um þetta komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að sögnin áskrifa væri „ekki til í íslensku þó vissulega sé hún rétt mynduð, og að það er engin bein einföld þýðing til á sögninni to subscribe“.

Í umræðu um þessa færslu kom fram að sögnin áskrifa er (eða var) reyndar til í málinu, þótt hana sé ekki að finna í neinum orðabókum. Fáein dæmi eru um hana frá lokum 19. aldar og upphafi þeirrar 20. í merkingunni 'skrá sig', einkum áskrifa sig til vesturfarar. En yngstu dæmi um sögnina eru um aldargömul þannig að það er ekki von að nútímafólk þekki hana.

En er þetta ekki einmitt ágæt þýðing á subscribe? Merkingin er ekki nákvæmlega sú sama en mjög nálægt samt. Við gætum sagt ég áskrifaði mig að þessari stöð, áskrifaðu þig að fréttabréfi okkar, o.s.frv. Það er miklu liprara en ég gerðist áskrifandi að þessari stöð, að ekki sé talað um gerstu áskrifandi að fréttabréfi okkar. Er ekki um að gera að endurnýta gömul orð?

Fyrir utan að mér sýnist þetta vera ágætt orð sem er snjallræði að endurvekja, þá er þetta frábært dæmi um það hvernig umræður um tungumálið geta vakið áhuga nemenda og orðið frjóar. Það á endilega að leyfa nemendum að fara á flug í slíkum umræðum og benda þeim á að þau eigi hlut í málinu líka og geti vel komið með snjöll orð sem eiga fullt erindi til annarra.