Þágufalli ofaukið
Undanfarið hef ég oft tekið eftir því að notað er þágufall þar sem það ætti ekki að vera samkvæmt málhefð og minni málkennd. Það sem ég á við er þegar þágufall er notað í flóknum málsgreinum í stað annarra falla, einkum eignarfalls. Þetta er alls óskylt hinni alþekktu „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“. Það er ekki bundið við óformlegt mál heldur sést iðulega í textum sem ættu að vera vandaðir. Um er að ræða setningar eins og þessar:
- Sigrún er í Noregi auk föður hennar Guðmundi Jónssyni
- Það er svigrúm til fleiri verkefna tengdum alþjóðamálum
- Krefjast lögbanns tengdu smálánum
- Haldið upp á afmæli Sigríðar, náins kollega og besta kennaranum í skólanum
Þessi dæmi hef ég öll séð í blöðum eða á netinu nýlega (nöfnum breytt). Þágufallsliðurinn sem um er að ræða er hér undirstrikaður, og á undan honum er alltaf nafnliður í eignarfalli. Í fyrsta dæminu stýrir forsetningin auk eignarfalli á föður hennar, í öðru dæminu stýrir forsetningin til eignarfalli á fleiri verkefna, í því þriðja stýrir sögnin krefjast eignarfalli á lögbanns, og í því síðasta tekur nafnorðið afmæli með sér eignarfall á Sigríðar, náins kollega.
Í öllum dæmunum er undirstrikaði liðurinn hliðskipaður eignarfallsliðnum og ætti því að sambeygjast honum og standa líka í eignarfalli – vera Guðmundar Jónssonar, tengdra alþjóðamálum, tengds smálánum og besta kennarans. En þess í stað stendur liðurinn í þágufalli. Flest dæmi sem ég hef rekist á um ofnotkun þágufallsins eru af þessu tagi – tveir nafnliðir standa saman og ættu báðir að vera í eignarfalli, en sá seinni kemur í þágufalli í staðinn. Hvernig stendur á þessu?
Einfaldast væri að afgreiða þetta sem fljótfærnisvillu – segja að fólk hafi bara ekki lesið textann nægilega vel yfir. Og að einhverju leyti er það trúlega rétt – ef fólk læsi textann vandlega má ætla að það tæki oft eftir þessu og lagfærði það. En það er samt ekki næg skýring. Það getur ekki verið tilviljun að fallbreytingin kemur langoftast fyrir við þessar aðstæður, þar sem tveir eignarfallsliðir ættu að koma saman. Og það getur ekki heldur verið tilviljun að eignarfallinu er skipt út fyrir þágufall.
Ég hef enga skýringu á þessu, aðra en þá að það virðist á einhvern hátt trufla málnotendur þegar tveir (eða fleiri) eignarfallsliðir eiga að koma hver á eftir öðrum. Þótt ekki sé langt síðan ég fór að taka eftir þessu veit ég ekki hvort það er nýlega til komið, og ég veit ekki heldur hvort hægt er að líta svo á það þarna sé einhvers konar málbreyting í gangi. Það er reyndar þekkt að eignarfall stendur veikast fallanna og e.t.v. er þetta einhver angi af veikingu þess – sem stundum er kölluð „eignarfallsflótti“.
En þótt ég hafi oft séð þetta í rituðu máli minnist ég þess ekki að hafa heyrt sambærileg dæmi í talmáli – nema í útvarps- og sjónvarpsfréttum, en þar liggur vitanlega ritaður texti að baki. Það getur verið tilviljun, en það getur líka verið vegna þess að setningar í talmáli eru venjulega einfaldari en í rituðu máli og samtengdir eignarfallsliðir sennilega sjaldgæfir í talmáli – þótt engar rannsóknir liggi fyrir sem staðfesti það.
Mér finnst full ástæða til að vinna gegn þessari tilhneigingu, ekki síst vegna þess að ég sé ekki betur en hún gæti veikt eignarfallið og þar með fallakerfi málsins sem mér finnst skipta miklu máli að varðveita. Þótt fljótfærni sé varla bein ástæða þessarar tilhneigingar eins og áður er nefnt er hægt að fækka tilvikum af þessu tagi með vönduðum yfirlestri. Það er reyndar alltaf góð regla að lesa yfir það sem maður skrifar. Hugið vel að þessu í því sem þið skrifið!
Hér þarf þó að hafa fyrirvara. Það hefur hvarflað að mér að þessar villur séu stundum einmitt komnar til við yfirlestur. Það er ekki óhugsandi að fólk skrifi þetta rétt í upphafi, lesi textann svo yfir og finnist runa af eignarfallsliðum fara illa og vera knosuð – sem vissulega er oft tilfellið – og breyti því seinna eignarfallinu og finnist textinn renna betur þannig. En þetta er bara hugdetta sem ég hef engar sannanir fyrir og er kannski alveg út í bláinn.
En reyndar er þetta ekki bundið við eignarfallsliði þótt mér sýnist það vera algengast í þeim. Þegar ég var að skrifa þennan pistil rakst ég á setninguna „Stærsti liðurinn eru kjarasamningar og afturvirkar launahækkanir þeim tengdum“ í Fréttablaðinu. Þarna ætti að vera nefnifall, þeim tengdar, í stað þeim tengdum. Það sem er sameiginlegt með þessu dæmi og hinum er að það er seinni liðurinn í hliðskipun sem fær rangt fall.
Þar að auki er athyglisvert að lýsingarorðið tengdur kemur fyrir í þessu dæmi og tveim af hinum og á slík dæmi hefur líka verið bent í Málfarsbankanum. Það er varla tilviljun – en hver er skýringin?