Íslensk málfarsumræða

Hugsið ykkur ef það þætti eðlilegt og sjálfsagt á Íslandi að gera lítið úr tilteknum hópum eða jafnvel nafngreindu fólki vegna kynhneigðar, litarháttar, þjóðernis, fötlunar eða trúarbragða. Hugsið ykkur ef þessir þættir væru tengdir við líkamlegt eða andlegt atgervi fólks og notaðir til að gera lítið úr hvoru tveggja. Hugsið ykkur ef fólk berði sér á brjóst fyrir þetta og teldi sig vera að vernda íslensk gildi, andleg og líkamleg. Vilduð þið búa í þjóðfélagi þar sem þetta viðgengist?

Sem betur fer er þetta ekki svona á Íslandi árið 2020. Vissulega má fólk enn búa við fordóma vegna áðurnefndra þátta, eins og sést ekki síst í athugasemdakerfum vefmiðla. En almenningsálitið styður þá ekki – það þykir ekki í lagi að láta þá í ljós. En öðru máli gegnir þegar kemur að málfari fólks. Þá virðist furðu mörgum þykja í góðu lagi að gera lítið úr fólki, jafnvel nafngreindu, og kalla það öllum illum nöfnum fyrir meinta hnökra á máli þess – rangan framburð, beygingarvillur, erlendar slettur, merkingarbrengl, og hvers kyns ósóma sem fólk þykist finna í máli náungans.

Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið þessu marki brennd – full fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík.

Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Hún er dónaskapur og stundum jafnvel persónuníð sem ekki á að líðast í opinberri umræðu. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum.

En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar – og á að vera það. Sameinumst um að breyta þessu!