Slæsa

Nýlega kom orðið slæsa sem stundum er notað um pitsusneið upp í umræðum í Málspjalli á Facebook. Þetta orð er augljóslega komið af enska orðinu slice og mér fannst það óþarft í fyrstu. En ég skipti um skoðun þegar ég fór að átta mig betur á orðinu og merkingu þess. Þess vegna gat ég ekki stillt mig um að smella af mynd þegar ég átti leið fram hjá nýjum pitsustað vestur í bæ, um leið og ég ítreka ég þá skoðun mína að það sé ekkert við þetta orð að athuga þótt það sé komið úr ensku. Fyrir því eru fjórar ástæður.

Í fyrsta lagi fellur orðið ágætlega að íslensku hljóðkerfi og beygingarkerfi – við enska orðið hefur verið bætt -a til að gera það að veiku kvenkynsorði, sbr. dræsa. Í öðru lagi þjónar þetta orð ákveðnum tilgangi, hefur merkingu sem ekki var áður til sérstakt orð fyrir, þ.e. 'pitsusneið sem er seld sér'. Í þriðja lagi kemur orðið ekki í staðinn fyrir sneið og mun ekkert útrýma því orði, heldur er notað meðfram, einmitt vegna þessarar sérhæfðu merkingar sem það hefur.

Í fjórða og síðasta lagi er orðið sjálfsprottið meðal (ungra) málnotenda. Eins og ég hef áður nefnt er mikilvægt að gefa unga fólkinu hlutdeild í málinu – láta ekki eins og íslenska sé einkaeign okkar fullorðna fólksins (jafnvel eftirlaunafólks eins og mín) sem ekki megi hrófla við. Unga fólkið verður að fá að nota íslenskuna eins og það kýs, þótt jafnframt sé sjálfsagt að leiðbeina því og leggja áherslu á gildi þess að halda í hefðir málsins.