Á nóinu

Orðasambandið á nóinu merkir 'þegar í stað, umsvifalaust' og er komið af enska sambandinu in no time sem hefur sömu merkingu. Á tímarit.is má finna samtals 60 dæmi um á no time og á nó tæm, þar sem „no time/nó tæm“ er oftast innan gæsalappa. Elsta dæmið er frá 1963 og fram til 1980 eru dæmin samtals 21, en fækkar þá snögglega. Elsta dæmið um íslensku útgáfuna á nóinu er frá 1968 – úr sögunni „einsog kirkja“ eftir Megas, hvort sem hann er upphafsmaður þessa eða ekki. Dæmin fram til 1980 eru samtals sex, en fjölgar þá snögglega. Umskiptin úr á no time / nó tæm í á nóinu eru því mjög skýr.

Megas sá vitaskuld enga ástæðu til að biðjast afsökunar á þessu orðfæri með gæsalöppum en það var þó iðulega gert framan af, og einnig fylgdu sambandinu oft afsakanir í orðum – „eins og nú er sagt“, „eins og það heitir á nútímaíslensku“ o.fl. En bæði gæsalappir og slíkar afsakanir sjást mjög sjaldan á síðari árum sem bendir til þess að sambandið sé orðið viðurkennt í málinu. Það komst líka snemma inn í bókmenntirnar – áðurnefnd saga Megasar er reyndar nánast óþekkt en þeim mun þekktari er texti Bjartmars Guðlaugssonar, „Týnda kynslóðin“, frá 1987 – „Barnapían er með blásið hár / og pabbi yngist upp um átján ár á nóinu“.

Þarna er enska neitunin, no, tekin og gerð að íslensku nafnorði sem yfirtekur merkingu sambandsins í heild – enska nafnorðið, time, dettur alveg út. En neitunin er ekki tekin óbreytt inn, heldur látin hafa ákveðinn greini og beygingarendingu sem sýnir að orðið er meðhöndlað sem hvorugkynsorð. Það er ekkert athugavert við sem hvorugkynsorð – það rímar t.d. við frjó, gró, hró o.fl. Orðið kemur að vísu bara fyrir í þessu sambandi og þar af leiðandi aðeins í myndinni nóinu, en það er ekki einsdæmi – sama er að segja um taktein í sambandinu á takteinum, boðstól í sambandinu á boðstólum, o.fl.

Þegar að er gáð er þetta því í raun afskaplega skemmtileg orðmyndun sem sýnir vel sköpunarmátt málsins. Þarna er hráefnið að vísu erlent en málið vinnur úr því á mjög frumlegan hátt. Það væri mikil skammsýni að amast við þessari nýjung – þess í stað eigum við að nota hana sem dæmi um að íslenska er lifandi mál – ef hún bara fær að sprikla.