Frelsi og ábyrgð
Þótt ég fjalli hér oft um málbreytingar af ýmsu tagi án þess að fordæma þær eða kalla þær „rangt mál“ legg ég áherslu á að markmið mitt er alls ekki að ýta undir breytingar eða hvetja til þeirra. Þvert á móti – ég tel af ýmsum ástæðum æskilegt að íslenskan breytist sem minnst, umfram það sem nauðsynlegt er til að koma til móts við margvíslegar nýjungar bæði í efnisheiminum og hugmyndaheimi okkar þannig að hún þjóni samfélaginu og samtímanum sem best.
Á hinn bóginn tel ég ástæðulaust og í mörgum tilvikum til bölvunar, bæði fyrir málnotendur og málið sjálft, að berjast gegn tilbrigðum sem eiga sér jafnvel áratuga eða alda sögu og eru útbreidd meðal málnotenda. Þau eru til og verða ekki barin niður – þrátt fyrir langa og ákafa baráttu í mörgum tilvikum. Ég vil auka skilning á þessum tilbrigðum, reyna að átta mig á og útskýra fyrir öðrum hvernig og hvers vegna þau koma upp, í þeirri von að fólk verði umburðarlyndara gagnvart þeim.
En þótt ég vitni oft í Málfarsbankann og sé iðulega á öndverðum meiði við hann um málfarsatriði finnst mér fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt að slíkur upplýsingabanki sé til, og þar sé gerð grein fyrir því hvað hefur verið talið rétt og viðurkennt mál. Ég er að vísu ekki alltaf sáttur við framsetningu ábendinga í bankanum, en meðan sú skoðun er ríkjandi eða a.m.k. útbreidd að ýmis þekkt tilbrigði eigi ekki heima í formlegu máli þurfa málnotendur að hafa aðgang að upplýsingum um það.
Þegar ég hef verið að útskýra eitthvert tilbrigði sem venja hefur verið að telja „rangt“, og benda á að e.t.v. sé þetta í góðu lagi, hef ég stundum fengið viðbrögð á við „Já, það getur verið, en ég ætla nú ekki að fara að breyta mínu máli“. Auðvitað hvarflar ekki að mér að ætlast til eða gera ráð fyrir að fólk breyti máli sínu eða málkennd. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hætti að láta tiltekin atriði í málfari annarra fara í taugarnar á sér – við getum oft lítið að því gert.
Ég vonast hins vegar til að hætt verði að flokka fólk eða dæma eftir málfari, að fólk átti sig á og viðurkenni að lifandi mál er fullt af tilbrigðum af ýmsu tagi, og það er í góðu lagi – og raunar bráðnauðsynlegt til að málið lifi áfram, höfði til málnotenda og þjóni þörfum þeirra. Við þurfum að veita öllum málnotendum hlutdeild í íslenskunni, leyfa þeim að finna að þetta er þeirra mál, sem þeim er frjálst að nota á þann hátt sem þeim finnst eðlilegt.
En jafnframt þurfum við að gera þeim ljóst að frelsinu fylgir ábyrgð, og þeirra er ábyrgðin á að skila málinu áfram.