Kreppa eða krísa?
Ég var nýlega spurður út í orðin kreppa og krísa – hvort þau merktu það sama, og hvort þeirra ætti að nota. Mér fannst þetta áhugavert og fór að kanna málið aðeins og komst að því að krísa er nýlegt tökuorð – fer fyrst að sjást á prenti um 1970 en verður ekki algengt fyrr en eftir 1980 og kemur t.d. ekki fyrir í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1982. Það hefur þó örugglega verið notað eitthvað í töluðu máli löngu fyrr – kemur t.d. fyrir í pistli í Fálkanum 1940 þar sem verið er að gera grín að slangri og slettum. Orðið gæti hafa komið inn í íslensku hvort heldur er úr dönsku (krise) eða ensku (crisis) þótt danskan sé kannski líklegri.
Bæði í netútgáfu Íslenskrar orðabókar á Snöru og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið krísa merkt „óformlegt“. Í síðarnefndu bókinni er það skýrt sem 'ótryggt ástand, erfiðleikar' eða 'sálræn vandamál, t.d. eftir áfall'. Skýring orðsins kreppa er aftur á móti 'vandræði, klípa' eða 'verulegir örðugleikar í efnahagsmálum, með atvinnuleysi og sölutregðu, efnahagskreppa'. Skýringarnar í Íslenskri orðabók eru mjög svipaðar en um kreppu segir þó einnig 'samfelldir erfiðleikar sem ógna venjulegu starfi eða framgangi hóps, fyrirtækis, stofnunar'.
Tilfinning mín fyrir merkingu þessara orða fellur að mestu að þessum skýringum þótt ýmsu mætti bæta við til að orða merkinguna nákvæmar. Mér finnst krísa geta átt við hvers kyns erfiðleika og vandræðaástand sem iðulega kemur snöggt og óvænt upp á. Jafnframt finnst mér að það sé oft hugsanleg lausn á krísunni – það sé á valdi þeirra sem lenda í krísunni að leysa hana eða komast úr henni, af eigin rammleik eða með hjálp annarra. Mér finnst líka að krísa sé yfirleitt ekki langvarandi – annaðhvort leysist hún og við sleppum úr krísunni eða allt hrynur í einhverjum skilningi.
Orðið kreppa eitt og sér finnst mér eingöngu merkja 'efnahagskreppa'. Vissulega eru til ýmsar aðrar kreppur – tilfinningaleg kreppa, sálarkreppa, stjórnarkreppa o.s.frv., en þá er orðið annaðhvort hluti samsetts orðs eða með ákvæðisorði sem skilgreinir merkinguna nánar. Mér finnst líka að kreppa sé iðulega langvarandi, og hún er ástand sem ekki verður leyst eða komist úr á skömmum tíma eða með tilteknum aðgerðum, þótt hægt sé að grípa til ýmissa aðgerða sem stuðla að því smátt og smátt að kreppan leysist.
Þótt krísa sé vissulega tökuorð sem hefur verið talið óformlegt er engin ástæða til annars en nota það, jafvel í formlegu málsniði, ef það gerir gagn í málinu – það fellur ágætlega að hljóðkerfi og beygingarkerfi málsins. Eins og hér hefur komið fram er talsverður munur á merkingu og notkun orðanna kreppa og krísa. Því er ljóst að krísa er gagnlegt orð og ég mæli með því að það verði viðurkennt sem fullgild íslenska.