Hljóðavíxl í orðstofnum
Þótt stafsetning byggist vissulega á talmálinu fer því fjarri að hún endurspegli framburðinn nákvæmlega. Ein meginástæða þess er sú að rík tilhneiging er til þess að skrifa sama orðstofn (eða sama orðhluta) alltaf með sömu bókstöfum, jafnvel þótt framburðurinn sé mismunandi. Þannig skrifum við k í nafnhætti sagnarinnar tak-a, og líka í viðtengingarhættinum (þótt ég) tak-i, en framburðurinn er ekki sá sami. Í taka er sama hljóð og upphafshljóðið í galdur (eða kaldur, ef miðað er við harðmæli) en í taki er sama hljóð og upphafshljóðið í gjósa (eða kjósa, miðað við harðmæli).
Við skrifum líka p bæði í nafnhættinum æp-a og þátíðinni æp-ti, þótt í fyrra dæminu sé borið fram b (eða p), en í því seinna alltaf f. Við skrifum g í nefnifallinu dag-ur, þágufallinu deg-i og eignarfallinu dag-s; samt berum við fram þrjú mismunandi hljóð í þessum myndum eins og þið getið gengið úr skugga um sjálf. Við skrifum f bæði í nefnifallinu hefill og þágufallinu hefli þótt við berum fram v í fyrri myndinni en b í þeirri seinni. Og við skrifum a bæði í nefnifallinu mag-i og aukaföllunum mag-a, enda þótt við berum fram æ og j í fyrri myndinni en a og sama g-hljóð og í saga í þeirri seinni. Svo mætti lengi telja – dæmi af þessu tagi í málinu eru mýmörg.
Hvernig stendur á því að við breytum hljóðum í stofni eftir því hver endingin er? Í fljótu bragði er kannski eðlilegast að svara því til að þannig lærðum við málið. Börn læra það sem fyrir þeim er haft; mamma og pabbi nota eitt hljóð í taka en annað í taki, eitt hljóð í æpa en annað í æpti, o.s.frv., og við öpum bara eftir þeim. En við nánari umhugsun kemur þó í ljós að svarið er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er málið alltaf að breytast. Ef fólk segði aldrei annað en það sem það hefði heyrt aðra segja mætti búast við að málið héldist óbreytt um aldur og ævi. Því er þó ekki að heilsa; nýjungar eru alltaf að koma upp, og sýna að börn endurtaka ekki einfaldlega það sem fyrir þeim er haft.
Í öðru lagi er ljóst að við þurfum sjaldnast að læra beygingarmyndir nýrra orða hverja fyrir sig; við getum umsvifalaust búið til beygingarmyndir sem við höfum aldrei heyrt út frá einni eða tveimur myndum. Væntanlega hafið þið aldrei heyrt orðið *spaga, enda er það ekki til sem íslenskt orð svo að ég viti. En þótt g geti staðið fyrir ýmis mismunandi hljóð í íslensku er ég nokkurn veginn viss um að ef þið sæjuð þetta orð á prenti mynduð þið bera það fram þannig að það rímaði við saga – þið mynduð ekki nota hljóðið sem g stendur fyrir í orðum eins og galdur. Ef ykkur væri sagt að þetta væri sögn í nafnhætti yrðuð þið örugglega ekki í neinum vandræðum með að búa til fyrstu persónu fleirtölu (við) spögum, og breyta þar a í ö, né heldur aðra persónu fleirtölu (þið) spagið, og láta æ koma í stað a og j í stað g-hljóðsins.
Þarna er ljóst að okkur dugir ekki að endurtaka bara það sem annað fólk segir. Við hljótum líka að búa yfir einhverjum almennum reglum sem segja til um hvernig hljóð breytast eftir umhverfi sínu. Þetta eru ekki reglur sem við lærum í skóla eða af bókum; þetta eru reglur sem við tileinkum okkur óafvitandi um leið og við lærum málið, mynstur sem við greinum ómeðvitað í málinu sem við heyrum í kringum okkur, og beitum síðan ósjálfrátt og án umhugsunar. Hljóðavíxl á borð við þau sem hér hefur verið lýst má oft skýra þau með því að hljóð í beygingarendingunni (oftast upphafshljóð hennar) hafi áhrif á hljóð í stofninum (oftast lokahljóð hans); leitist við að gera það líkara sér.
Vegna þess að íslenska er tiltölulega mikið beygingamál er mjög mikið um hljóðavíxl af þessu tagi í stofnum málsins; sami stofninn getur oft fengið margar mismunandi endingar, sem hefjast á ólíkum hljóðum og hafa því mismunandi áhrif á stofninn. Stóran hluta af þessum víxlum má skýra á þann hátt sem hér hefur verið gert; sem sé með því að upphafshljóð endingarinnar leitist við að laga lokahljóð stofnsins að sér. Við getum hugsað okkur þetta sem tilhneigingu til að létta talfærunum starfið; eftir því sem tvö samliggjandi hljóð eiga meira sameiginlegt þarf yfirleitt minna að hreyfa talfærin. Flest slík hljóðavíxl koma sennilega upp sem hljóðfræðilega eðlileg ferli; ferli sem hægt er að skýra út frá gerð og starfsemi talfæranna. Þau áhrif sem hljóð verða fyrir frá grannhljóðum sínum stefna í þessa átt.