Tilvísunartengingar - ekki tilvísunarfornöfn
Fyrir 40 árum sat ég í námskeiði um setningafræði í Háskóla Íslands. Kennarinn var Höskuldur Þráinsson sem þá var nýkominn þar til starfa frá námi í Bandaríkjunum. Hann hafði þann hátt á í kennslunni að leggja fyrir okkur verkefni af öðru tagi en við höfðum kynnst áður. Þau verkefni sem ég hafði gert áður í háskólanámi mínu höfðu flest þann tilgang að athuga hvort nemandinn hefði tileinkað sér það sem hann átti að vera búinn að læra í tímum og af lesefninu, eða voru til þess ætluð að finna einhverja tölu sem væri hægt að hengja á nemendur og kalla einkunn.
Þessi verkefni voru hins vegar mikilvægur hluti kennslunnar, e.t.v. sá mikilvægasti – í þeim fengum við sjálf að „uppgötva“ eitthvað og Höskuldur var einkar laginn við að láta nemendum finnast að þeir væru sjálfir að uppgötva stórmerkilegar nýjungar. Þar bar hæst þá „uppgötvun“ mína og annarra í námskeiðinu að sem og er væru ekki tilvísunarfornöfn eins og við höfðum öll lært hjá Birni Guðfinnssyni, heldur samtengingar. Það lét Höskuldur okkur uppgötva með því að setja fyrst fram nokkrar einfaldar staðreyndir og síðan fáeinar setningar og láta okkur svo skoða þetta í samhengi. Þá varð niðurstaðan augljós og óumflýjanleg.
Ég kunni minn Björn Guðfinnsson og hafði staðið í þeirri meiningu fram að þessu að málfræðigreining hans væri hafin yfir efa. Heimsmynd mín hefur því sjaldan orðið fyrir þyngra höggi en þegar ég var látinn gera þessa uppgötvun, og ekkert hefur kennt mér meira um gagnrýna hugsun. Í gagnfræðaskóla var ég mjög sjóaður í því að finna fall tilvísunarfornafna, sem ekki var á allra færi, en þarna reyndist sú kunnátta allt í einu óþörf, gagnslaus – og raunar hlægileg. En ég sannfærðist, og hefur alla tíð síðan fundist þessi endurskilgreining Höskuldar á sem og er, sem birtist í svo í greininni „Tilvísunarfornöfn“ í Íslensku máli 1980, vera frábært dæmi um einfalda og skýra málfræðilega röksemdafærslu.
Samt er enn, 40 árum síðar, verið að kenna sumum íslenskum börnum og unglingum að sem og er séu tilvísunarfornöfn. Ég veit ekki hversu víða þetta er gert, en hef sannfrétt að það sé í einhverjum skólum. Ég verð að játa að það er ofar mínum skilningi. Auðvitað er mér vel ljóst að þótt eitthvað sé kennt á háskólastigi á það ekki endilega alltaf erindi í grunnskólakennslu. Auðvitað þarf að setja kennsluefni í grunnskóla fram á þann hátt að hæfi nemendum, og þá getur þurft að víkja frá fræðilegri nákvæmni til einföldunar. En hér er bara ekki um slíkt að ræða. Þvert á móti – það er miklu flóknara að kenna það að sem og er séu tilvísunarfornöfn en að þau séu tengingar.
Í hvaða grein annarri en íslensku myndi það þekkjast að enn sé verið að kenna eitthvað sem sýnt hefur verið fram á fyrir 40 árum að er kolrangt? Hvers á íslenskan að gjalda?