Tvenns konar s

Í lýsingum á íslenskum málhljóðum er sagt að s sé myndað þannig að tungan leggist upp að tannberginu (stallinum aftan við efri framtennur) og myndi öng (þrengingu) sem loftstraumurinn frá lungunum þrýstist um. Í flestum lýsinganna er gert ráð fyrir að það sé tungubroddurinn sem myndar þrenginguna, en í Mállýskum I segir Björn Guðfinnsson þó að þrengingin myndist „milli tungubrodds (og stundum tungufitjar) og neðri hluta tannbergs“. Tungufit eða (tungublað) er sá hluti tungunnar sem er næst fyrir aftan tungubroddinn.

Þegar ég fór að kenna hljóðfræði fyrir 35 árum áttaði ég mig fljótlega á því að ég mynda þrenginguna í s ekki með tungubroddinum heldur tungufitinni/tungublaðinu, en tungubroddurinn er sveigður niður og liggur fyrir aftan framtennur í neðri gómi. Ég spurði nemendur hvernig þeir mynduðu s og u.þ.b. helmingur þeirra reyndist mynda þrengingu með tungubroddinum en hinn helmingurinn myndaði eins og ég. Eftir þetta spurði ég alltaf að þessu þegar ég kenndi hljóðfræði og niðurstaðan var alltaf svipuð, þótt yfirleitt væru öllu fleiri með tungubroddsmyndun. Ég hef hins vegar aldrei kannað hvort einhver heyranlegur munur sé á s-hljóðum fólks eftir því hvora aðferðina það notar.

Það er rétt að hafa í huga að íslenska er sérstök að því leyti að hún hefur aðeins eitt s-hljóð en flest tungumál í kringum okkur hafa fleiri. Enska hefur t.d. samsvarandi raddað hljóð eins og í zero, auk hljóða þar sem þrengingin er aðeins aftar eins og upphafshljóðið í she og samsvarandi raddað hljóð í treasure, og svo tvinnhljóðin í chill og jam. En vegna þess að íslenska hefur aðeins eitt hljóð af þessu tagi hefur það verulegt svigrúm og getur hljómað á talsvert mismunandi hátt án þess að ruglast saman við nokkuð annað – og án þess að við tökum eftir því. Fólk sem er að læra íslensku verður hins vegar oft dálítið ruglað í ríminu vegna þess að það heyrir fjölbreytt s-hljóð og heldur að munur hljóðanna hafi eitthvert gildi.

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að íslenskt s skuli vera myndað á fleiri en einn hátt. Setjum okkur í spor barns á máltökuskeiði sem er að ná valdi á íslenskum málhljóðum. Barnið skoðar vitanlega ekki upp í foreldra sína til að sjá hvernig þau myndi s, heldur reynir að beita eigin talfærum til að mynda svipað hljóð og það heyrir í umhverfi sínu. Sum börn prófa að mynda þrengingu með tungubroddinum og mynda hljóð sem þau finna að umhverfi samþykkir, þannig að þau hafa enga ástæðu til að endurskoða tilgátu sína. Önnur prófa að nota tungufit/tungublað til að mynda þrenginguna og finna einnig að umhverfið samþykkir þeirra sþannig að þau halda sig við það.

Þetta hefur aldrei verið rannsakað neitt. Við vitum ekki hlutföllin milli þessara tveggja aðferða, við vitum ekki hvort einhver kerfisbundinn heyranlegur munur er á þeim, við vitum ekki hvort þessi mismunandi hljóðmyndun tengist aldri, kyni, landshlutum, eða jafnvel genum. Ég gerði nýlega örlitla könnun á þessu á Facebook sem um 90 manns á ýmsum aldri tóku þátt í. Rétt tæpur helmingur sagðist mynda s með tungubroddi en rúmur helmingur með tungufit/tungublaði. Í yngsta aldurshópnum, hjá fólki fæddu eftir 1990, var tungubroddsmyndun í meirihluta en þátttakendur á þeim aldri voru svo fáir að það er ekki marktækt. Ekki var heldur hægt að lesa neitt um kynjamun út úr niðurstöðunum, og upplýsingar um uppruna fólks vantar. Þetta er því enn órannsakað mál.