Skýr og óskýr framburður

Stundum er sagt að skýr framburður felist í því að „bera fram alla stafina“ en það er villandi orðalag af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi berum við ekki fram stafi, heldur hljóð – bókstafirnir eru hins vegar fulltrúar hljóðanna í riti, og þessu tvennu má ekki rugla saman. Í öðru lagi er það rangt að hver einasti bókstafur í orðinu rituðu skuli alltaf eiga sér fulltrúa í framburðarmynd þess. Mjög algengt er að einhver hljóð sem koma fram í sumum beygingarmyndum orðs, t.d. lokahljóð stofns, komi ekki fram í öðrum myndum orðsins eða skyldum orðum, án þess að nokkur ástæða sé til að tala um óskýrmæli. Þótt g sé í stofni lýsingarorðsins margur og f (borið fram v) í nafnhætti sagnarinnar þurfa ber fólk aldrei fram neitt g-hljóð í hvorugkyninu margt, eða f/v í þátíðinni þurfti. Við segjum öll mart og þurti þótt g og f séu auðvitað skrifuð í þessum myndum.

Dæmi á við þessi eru mýmörg í málinu, einkum í samhljóðaklösum sem myndast þegar ending sem hefst á samhljóði bætist við stofn sem endar á tveimur (eða fleiri) samhljóðum, eins og í marg+t, þurf+ti. Þá er algengast að miðhljóð klasans (eitt eða fleiri) falli brott, en upphafs- og endahljóð hans standi eftir. Ekki er þetta þó algilt, og útilokað að gefa nákvæma lýsingu á slíkum brottföllum vegna þess að orð sem virðast sambærileg haga sér ekki alltaf eins. Sum brottföll eru algild, eins og í margt og þurfti, en önnur eru háð einstaklingum, talhraða, málsniði o.fl. Í slíkum tilvikum er oft álitamál hvort réttlætanlegt er að tala um „óskýran“ framburð – og eins hvenær hægt er að tala um ofvöndun, þ.e. að framburðurinn sé lagaður um of að stafsetningunni.

Það er fullkomlega eðlilegt að fella brott áherslulaus sérhljóð í enda orðs ef næsta orð hefst á sérhljóði. Ég sagði ekki neitt berum við fram Ég sagð' ekki neitt og Þeir fóru út berum við fram Þeir fór' út. h fellur einnig brott í upphafi áherslulausra orða í eðlilegu, samfelldu tali; Fór hann burt? berum við fram Fór 'ann burt? og Ég sýndi henni hann berum við fram Ég sýnd 'enn 'ann. Þegar h fellur framan af fornöfnunum henni og hann í seinna dæminu byrja þau á sérhljóði (enni og ann). Þá eru komin saman sérhljóð í upphafi orðanna og sérhljóð í enda næsta orðs á undan og þau síðarnefndu falla þá brott í samræmi við áðurnefnda reglu. Skemmtilegasta dæmið um þetta er ljóðlína Stuðmanna, Ann 'ann 'enn enn, þ.e. Ann hann henni ennh er hins vegar borið fram í slíkum tilvikum ef orðin bera áherslu.

Ýmiss konar samlaganir eru algengar milli orðhluta í samsettum orðum, oftast þannig að fyrsta hljóðið í seinni orðhlutanum leitast við að laga seinasta hljóðið í þeim fyrri að sér, t.d. hvað varðar röddun. Þannig berum við fram f í Hafsteinn vegna þess að næsta hljóð, s, er óraddað; en í Hafrún berum við fram v vegna þess að r er raddað. Í upphafi ýmissa fornafna og atviksorða er borið fram ð í stað þ, þegar þessi orð standa í áherslulausri stöðu í setningum. Þannig berum við Ég sýndi þér það venjulega fram Ég sýndi ðér ðað, en þurfi hins vegar að leggja áherslu á orðin er borið fram þ; Ég sýndi ðér ÞETTA. Nefhljóð fá mjög oft sama myndunarstað og eftirfarandi lokhljóð. Þannig er eðlilegt að bera komdu fram kondu og innbær fram imbær – sbr. líka að algengt gælunafn af Ingibjörg er Imba, ekki Inba.

Ekkert af því sem hér hefur verið nefnt er ástæða til að kalla óskýrmæli – þvert á móti er flest af því eðlilegur vandaður framburður. Á hinn bóginn er venja að kenna það við óskýrmæli þegar rödduð önghljóð, ð, g og v, falla brott milli sérhljóða og í enda orðs. Þannig er algengt að fólk beri dagblað fram dabla, og felli því brott bæði g og ð. Smáorð eins og og og það eru líka oft borin fram o og þa (eða ða inni í setningu). Brottfall af þessu tagi leiðir til þess að forsetningarnar og af falla iðulega saman í framburði, verða báðar að a, og það leiðir aftur til samblöndunar orðasambanda með þessum forsetningum. Til óskýrmælis má líka telja það þegar tvíhljóð einhljóðast, eins og oft gerist; einkum með stutt tvíhljóð, og frekar í áherslulausum atkvæðum. Sem dæmi má nefna námsbakur í stað námsbækur, vitlust í stað vitlaust, og solskin í stað sólskin.