Skólarnir, skólardnir, skóladnir, skólanir

Samhljóðasambandið rn er borið fram á ýmsan hátt í íslensku. Upprunalegur framburður hefur væntanlega verið sá sem rithátturinn bendir til, þ.e. r+n. Sá framburður hefur á síðari árum einkum verið bundinn við Austur-Skaftafellssýslu en virðist nú vera að hverfa. Í venjulegum framburði kemur lokhljóð, d, á milli r og n, þannig að orð eins og barn og stjarna eru borin fram bardn og stjardna. Stundum fellur r alveg brott, þannig að framburðurinn verður badn og stjadna. Staða þessara tilbrigða er ekki alveg sú sama – rdn-framburðurinn gengur alltaf, en sumum þykir dn-framburðurinn óformlegri og hann er síður notaður í formlegu málsniði. Hann er líka tæplega notaður í sumum orðum – þótt ég beri börnin venjulega fram bödnin myndi ég ekki bera vörnin fram vödnin.

Með þessum fyrirvara um málsnið og einstök orð má segja að þessi þrjú tilbrigði – rn, rdn og dn – njóti öll viðurkenningar sem góður og gildur íslenskur framburður. En svo er eitt tilbrigði enn, þar sem r-ið fellur alveg brott og n stendur eitt eftir. Þetta er að vísu miklu takmarkaðra en hin afbrigðin því að það kemur aðeins fyrir á mótum beygingarendinganna -ar, -ir og -ur og ákveðins greinis, þ.e. í orðum eins og skólanir í stað skólarnir, gestinir í stað gestirnir og bækunar í stað bækurnar. Ekki er mikið vitað um þennan framburð en samkvæmt rannsóknum Björns Guðfinnssonar upp úr 1940 bar nokkuð á honum um sunnan- og vestanvert landið. Kristján Árnason telur í Íslenskri tungu I að hann sé í sókn en það hefur ekki verið rannsakað. En öfugt við hin tilbrigðin nýtur þessi framburður ekki viðurkenningar.

Í sumar varð gífurlegt fjaðrafok í Málvöndunarþættinum hér á Facebook þegar menntamálaráðherra sagði skólanir í sjónvarpsviðtali og notað þar væntanlega þann framburð sem hún ólst upp við, eins og við gerum yfirleitt. En fólk brást ókvæða við og sagði að þetta væri „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“, það væri „mjög sorglegt að menntamálaráðherra skuli ekki tala betri íslensku“ og væri jafnvel „ekki talandi á eigin tungu“, talaði um „latmælgi“ og „linmælgi“ ráðherrans, „ambögur“ og „málhelti“ og ýjaði jafnvel að því að ráðherrann væri með tunguhaft. Slíkt orðfæri um tiltekinn einstakling er auðvitað algerlega ótækt og þeim til skammar sem viðhafa það. Ráðherra er vitaskuld opinber persóna sem er sjálfsagt að gagnrýna málefnalega, en þetta átti ekkert skylt við það.

Þótt þessi framburður sé ekki algengur á hann sér langa hefð, e.t.v. allt frá 18. öld, og ég sé ekki hvers vegna hann ætti að vera eitthvað verri eða óæskilegri en önnur framburðartilbrigði sambandsins rn – eða verri en önnur svæðisbundin framburðartilbrigði. Staðbundnar framburðarmállýskur eða tilbrigði hafa yfirleitt verið umborin eða þeim jafnvel hampað og engin ástæða til að þessi framburður fái aðra meðferð. Það eru engin rök í málinu að það eigi að bera fram r í skólarnir af því að þar sé skrifað r – með sömu rökum yrðum við að hafna hinum venjulega framburði, skólardnir, sem hefur d þótt það eigi ekki að koma fram í stafsetningunni. Stafsetningu er hvorki hægt að nota til að réttlæta tiltekinn framburð né hafna.