Greynir

Greiningarhugbúnaðurinn Greynir sem Vilhjálmur Þorsteinsson og fyrirtæki hans Miðeind hefur skrifað er opinn og öllum aðgengilegur á netinu. Þar er hægt að finna margvíslegar upplýsingar um orðanotkun í fréttum íslenskra fjölmiðla, einkum um fólk og staði. Einnig er hægt að skoða hvernig tíðni einstakra orða í fréttum hefur þróast undanfarna mánuði og ár. Síðast en ekki síst er hægt að láta Greyni greina texta, beygingarlega og setningafræðilega.

Það er nóg að að slá eða líma texta inn í textareitinn og smella svo á „Greina“. Textinn kemur þá neðar á skjáinn (fyrir neðan línu þar sem stendur „Málgreining - Smelltu á málsgrein til að sjá trjágreiningu hennar“) og ef farið er með bendilinn yfir einstök orð hans birtist málfræðileg greining þeirra. Ef smellt er á textann birtist setningafræðihrísla hans með greiningu. Einnig er hægt að fara í fréttayfirlit Greynis og smella þar á frétt og fá greiningu hennar.

Athugið að greiningin er vélræn og óhjákvæmilega eru villur í henni. Ég er samt sem áður viss um að þessi hugbúnaður getur nýst kennurum, nemendum og öllum almenningi á ýmsan hátt. Auk þess sem hér hefur verið nefnt er þarna að finna ýmiss konar tölfræði um notkun Greynis og gögnin sem hann byggist á, svo og nánari upplýsingar um hugbúnaðinn og gögnin.