Marxísk sjálfsgagnrýni
Kringum 1980 umgekkst ég töluvert fólk úr ýmsum kommúnistasamtökum sem blómstruðu á Íslandi um það leyti, einkum KSML og EIKml. Þótt ég gengi aldrei í nein þessara samtaka fór ekki hjá því að ég fengi nasasjón af ýmsu í starfsháttum þeirra. Meðal þess sem okkur sem utan stóðu þótti sérkennilegast – og fyndnast – var hin eilífa sjálfsgagnrýni sem félagarnir stunduðu. Hún náði hámarki þegar tveir vinir mínir skiptu um lið, fóru úr KSML í EIKml, og skrifuðu af því tilefni 18 blaðsíðna sjálfsgagnrýni sem var dreift meðal félaga. Þetta veit ég vegna þess að plaggið var vélritað á stensla og síðan fjölritað (á þessum tíma var ljósritun munaður sem námsmenn gátu vart leyft sér) – og þeir fengu mig til að vélrita það af því að ég átti rafmagnsritvél (og var betri í vélritun).
Síðan þetta var hef ég haft lítil kynni af sjálfsgagnrýni þótt örugglega mætti segja að ég hefði mátt stunda hana meira. En nú er komið að því. Mér urðu á tvenn slæm mistök í Facebook-hópnum Málspjall í gær sem ég þarf að biðjast afsökunar á. Þar var sett inn spurningin „Hvað finnst málfróðum um notkun á sögninni að ávarpa“ í samhenginu „ávarpaði […] þær hugmyndir“. Nú tek ég fram að ég er alls ekki að áfellast fyrirspyrjanda. Það er ekkert augljóst að þessi fyrirspurn brjóti reglur hópsins um jákvæða og málefnalega umræðu, og í lýsingu hópsins er hvatt til spurninga „um málfarsleg atriði sem verða á vegi fólks“. Áþekkar fyrirspurnir hafa líka nokkrum sinnum verið settar inn, og þeim verið svarað.
Hins vegar sýnir reynslan að spurningar af þessu tagi kalla iðulega fram hneykslun og fordæmingu sem ekki er í anda hópsins. Þess vegna hefði ég átt að eyða færslunni og skrifa fyrirspyrjanda og biðja hann að orða spurninguna öðruvísi – spyrja t.d. frekar um aldur og útbreiðslu þessa orðalags en hvað lesendum fyndist um það. En það gerði ég ekki, heldur datt í þann pytt að fordæma orðalagið og segja: „Þetta er orðið nokkuð algengt og fer skelfilega í taugarnar á mér, af því að mér finnst þetta sýna bæði skort á málkunnáttu og skort á gagnrýninni hugsun.“ Það er vissulega alveg rétt að þetta fer í taugarnar á mér, en það afsakar ekki framhaldið. Það er skýrt brot á þeirri umræðuhefð sem ég hef boðað og vil að hér sé fylgt, og ég bið ykkur öll afsökunar á því.
Sem betur fer kom blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sem fyrirspurnin spratt af inn í umræðuna og sagði: „Það kom mér á óvart að sjá þessa umræðu þar sem ég hélt að það væri alveg eðlilegt að nota sögnina með þessum hætti. Greinilega orðið ansi algengt víða í kringum mig.“ Þegar ég las þetta fór ég að hugsa málið betur og áttaði mig á því að þarna væri kannski ekki um að ræða hráa enskuþýðingu sem bæri vott um hroðvirkni og hugsunarleysi, heldur hefði sögnin ávarpa einfaldlega þessa merkingu í máli margra. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég hef iðulega heyrt þessa notkun hjá harðfullorðnu fólki, t.d. stjórnmálamönnum sem örugglega vilja tala gott mál.
En í stað þess að hneykslast hefði ég mátt muna eftir pistli sem ég skrifaði í fyrra um það þegar fólk „hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna“. Blaðamaðurinn sem skrifaði umræddan texta sagði líka í umræðunni í gær: „Hvet ykkur öll til þess að senda blaðamönnum tölvupóst ef þið rekið augun í svona villur.“ Ég hef líka hvatt til þess, og stundum gert það. Haldið endilega áfram að spyrja um málfar hér í hópnum – til þess er hann. En ekki spyrja hvað fólki finnist um tiltekin atriði.