Málið og sjálfstæðisbaráttan

Það hefur lengi verið viðtekin skoðun að íslenskan sé helsta réttlæting og forsenda fullveldis Íslands. Alkunna er að tungan lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar á 19. öld var áhersla lögð á tungumálið og mikilvægi þess fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund. Iðulega var sett samasemmerki milli hnign­unar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. Hnignun tungumálsins var einnig tengd við afturför á öðrum sviðum. Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðar­brot sem töluðu mismunandi tungumál.

Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. Það gerðu Danir hins vegar ekki á Íslandi. Því var það að þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslend­inga á 19. öld var sú bar­átta fyrst og fremst háð innanlands en ekki við dönsk stjórn­völd. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungan var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notuð til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungan vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var hún vopnið.

Stjórnarskrá Íslands kveður ekki á um opinbera stöðu íslensku, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, t.d. í skýrslu stjórnlaganefndar frá 2011. Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi. Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011 er ekkert ákvæði um þjóðtungu en nefnt í skýringum að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum stjórnarskrárinnar. E.t.v. má ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orðið grundvöllur einhvers konar mis­mununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður. En tillaga um bæta ákvæði um íslenska tungu í stjórnarskrá hefur nú verið lögð fram.