Menningarlegt fullveldi

Þegar Ísland fékk full­veldi 1918 má segja að hlutverki íslensk­unnar í sjálfstæðis­baráttunni hafi lokið – og þó. Það er nefnilega til annars konar fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við öðluðumst fyrir einni öld. Það er menningarlegt fullveldi, sem virðist fyrst nefnt á prenti í grein sem birtist í fréttablaðinu Skildi í Vest­mannaeyjum á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, en þar segir: „Mörg þjóð hefir orðið að fórna blóði sinna bestu sona til þess að öðlast stjórnarfarslegt fullveldi. Svo mikils virði hefir það verið þeim. Þó er andlegt menningarlegt fullveldi engu minna virði.“

Á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar var oft talað um menningarlegt fullveldi, ekki síst í tengslum við Kanasjónvarpið svokallaða. Því var haldið fram að út­sendingar þess út fyrir herstöðina væru brot á íslenskri menningarhelgi og ógnuðu menningarlegu fullveldi Íslands. En menningarlegt fullveldi er vandmeðfarið hugtak vegna þess að skilgreining þess er ekki skýr – enn óskýrari en skilgreining stjórnarfarslegs fullveldis. Það er þó ljóst að flestir sem nota hugtakið telja tungumálið eitt það helsta sem þar þurfi að huga að.

Í bæklingnum Íslenzk menningarhelgi sem Þórhallur Vilmundarson prófessor samdi 1964 leggur hann áherslu á nauðsyn þess „að standa trúan vörð um tungu okkar og önnur arftekin þjóðarverðmæti, sem greina okkur frá öðrum þjóðum og ein veita okkur sjálfstætt, jákvætt gildi í samfélagi þjóðanna“ og gæta þannig íslenskrar menningarhelgi. „[…] íslenzk tunga og þjóðleg menningarverðmæti eru einangrunarfyrirbæri í þeim skiln­ingi, að þau væru ekki til, ef þjóðin hefði ekki fengið að lifa lífi sínu í þessu landi án þess að verða fyrir of stríðum erlendum áhrifum“, segir Þórhallur.

Á síðustu árum hefur umræðan um menningarlegt fullveldi risið aftur og nú í tengslum við stjórnarfarslegt fullveldi, ekki síst umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusam­band­inu. Lítill vafi er á því að aðild að ESB hefði í för með sér nokkurt framsal fullveldis, en spurn­ingin er hvort og þá að hvaða marki slík full­veldis­skerðing hefði áhrif á íslenska tungu og stöðu hennar – bæði réttar­stöðu og stöðu í samfélaginu og gagnvart öðrum tungum. Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið lagt áherslu á að virða þjóðtungur sam­bands­ríkj­anna.

Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opin­ber mál sambandsins. Þótt Íslendingar tækju á sig einhverja skerðingu á stjórnarfarslegu fullveldi við inngöngu í Evrópusambandið yrði það síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því rök að staða tungunnar myndi styrkjast við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007. Ekki eru miklar líkur á að Ísland afsali sér stjórnarfarslegu fullveldi í hendur Evrópusambandsins á næstunni, en framtíð menningarlegs fullveldis landsins er meira vafamál. Þar er tungumálið lykilatriði.