Málið og fullveldið

Tungumálið skapar sérstakan menningarheim sem bæði bægir frá áhrifum annarra menningar­heima og torveldar aðgang okkar að öðrum menn­ingar­heimum. En á síðustu árum hafa vissulega orðið gífurlegar þjóðfélagsbreytingar sem gætu stuðlað að því að rýra menningarlegt fullveldi landsins. Þau áhrif koma í gegnum þá menningu og menningarheima sem fólk kemst nú í nánari snertingu við en áður, en áhrifin á tungumálið gætu þó reynst afdrifarík­ust.

Land, þjóð og tunga hefur lengi verið órjúfanleg þrenning í huga margra Íslend­inga. Það er lítill vafi á því að sérstakt tungumál var frumforsenda þess að Íslend­ingar litu á sig sem sérstaka þjóð og kröfðust sjálfstæðis á 19. öldinni. Spurn­ingin er hins vegar hvort þetta hafi breyst eða sé að breytast. Er tungumálið orðið veigaminni þáttur en áður í sjálfsmynd Íslendinga? Guðmundur Hálf­danarson prófessor hefur t.d. haldið því fram að „náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum“.

Um þetta er vissulega ágreiningur, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þau sem eldri eru. Skilgreiningin á menningarlegu fullveldi er vissulega ekki á hreinu og því er erfitt að segja hvenær og hvernig það gæti glatast. Þótt svo færi að Íslendingar legðu íslensku af, eða hún yrði ekki nothæf nema á afmörkuðum sviðum, þarf það ekki að leiða sjálfkrafa til þess að menn­ingarlegt fullveldi glatist. Ég geri t.d. ráð fyrir að Írar telji sig menningarlega fullvalda þjóð þótt flestir þeirra noti ensku í öllu daglegu lífi.

Vitanlega felst menningarlegt fullveldi ekki í ein­angrunarstefnu og það er út af fyrir sig ekki sjálfgefið að það drægi úr menningar­starfsemi og nýsköpun á sviði menningar þótt hér væri töluð enska í stað íslensku. Þannig segir Kristján Árnason prófessor, í andsvari við hugmyndum Guðmundar Hálfdanar­sonar sem nefndar voru hér áður: „Íslensk menning hefur notað íslensku en það væri vel hugsanlegt – þó ég sé ekki að mæla með því – að íslensk menning notaði annað tungumál en menningin yrði þá að sjálfsögðu eitthvað öðruvísi en sú sem við höfum haft.“

En íslensk menning á ensku yrði síður aðgreind frá menningu annarra þjóða, og vegna þess hve samfélagið er fámennt eru líkur á að það yrði aðallega þiggjandi á sviði menningar, ef þeirri vörn sem tungumálið veitir yrði kippt brott. Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að ýmsar samfélags- og tækni­breytingar síðustu 5-10 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Við því þarf að bregðast, því að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir einstaklingana sem eiga hana að móður­máli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.