Tíðir og horf

Í Facebook-hópnum Málspjall var nýlega nokkur umræða um tíðir sagna – hversu margar og hverjar þær væru. Í eldri málfræðibókum, t.d. Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar sem var aðalkennslubók í málfræði í grunnskólum um áratuga skeið, var gert ráð fyrir átta tíðum. Þar af eru bara tvær ósamsettar, þ.e. koma eingöngu fram í sögninni sem um er að ræða, en hinar sex samsettar, þ.e. myndaðar með hjálparsögn (hafa og munu) og nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Í nýrri málfræðibókum eru hins vegar bara nútíð og þátíð flokkaðar sem tíðir, en hin samböndin eru flest kölluð horf, enda eru þau annars eðlis en tíðirnar tvær. Einar Freyr Sigurðsson orðaði muninn á þessu tvennu mjög vel í athugasemd hér um daginn og ég tek skýringu hans hér upp:

„[M]unurinn á tíð og horfi felst svolítið í því hversu marga viðmiðunarpunkta við höfum í tímatáknun. Tíð hefur tvo tímapunkta, taltíma (T) og atburðartíma (A) (tíma þess sem eitthvað gerist). Í þátíð, t.d. Ég borðaði í gær, er þetta A – T því atburðartíminn er á undan taltímanum (þess tíma sem setningin Ég borðaði í gær er sögð). Í nútíð falla A og T saman en í framtíð fer T á undan A. Í horfi bætist svo þriðji tíminn við, viðmunartími (V). Þú varst búin að borða (þegar ég kom heim) er dæmi um (lokið) horf: Þarna er atburðartími sem fer á undan taltíma og til viðbótar höfum við viðmiðunartíma (þegar ég kom heim) sem er í þessu tilfelli á milli atburðartíma og taltíma, þ.e. A – V – T.“

Í málinu eru til ýmis sagnasambönd sem gegna svipuðum hlutverkum og hinar samsettu „tíðir“, án þess að þau séu eða hafi verið flokkuð sem tíðir. Þannig er t.d. með sambandið vera búinn að, sem er ekki til í fornu máli í þeirri merkingu sem það hefur nú. Það kemur vissulega fyrir í fornum textum, en þá í merkingunni 'reiðubúinn'. Í Hallfreðar sögu vandræðaskálds segir: „Þú hefir og enn fyrr tekið mig með valdi og varst þá búinn að veita mér bana.“

Hér er nokkuð augljóst að vera búinn að er ekki notað í nútímamerkingunni – þá væri sögumaður ekki til frásagnar. En í „Ævintír af Eggérti Glóa“, sem Jónas Hallgrímsson þýddi og birtist í fyrsta árgangi Fjölnis, segir: „Þegar hann hafði riðið nokkra daga, varð hann ekki var við fyrr enn hann var búinn að villast inn í klettaklúngur, og sá þaðan hvurgi til vegar.“ Hér er jafnljóst að merkingin 'reiðubúinn' á ekki við, heldur nútímamerkingin. Sambandið virðist hafa fengið nútímamerkinguna á 17. öld.

Annað sagnasamband sem ekki er til í fornu máli er vera að gera eitthvaðég er að lesa bókina. Í fornum textum má hins vegar finna dæmi um vera að að gera eitthvað, þar sem er tvítekið. Þannig segir í Njálu: „Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári hlýddu til á meðan úti.“ Í slíkum tilvikum er fyrra -ið forsetning sem tekur með sér nafnháttarliðinn að segja söguna. Þetta er hliðstætt því að stæði þá var Gunnar að störfum, þar sem tekur með sér nafnorð í stað nafnháttarliðar í fyrra dæminu.

En sambönd þar sem sama orðið kemur fyrir tvisvar í röð, þótt það sé í mismunandi hlutverkum (það fyrra hér forsetning, það síðara nafnháttarmerki) eru óstöðug og í þessu tilviki féllu -in tvö saman og úr varð nýtt sagnasamband með fasta merkingu – vera að gera eitthvað. Þetta samband virðist hafa orðið til á 15. öld – a.m.k. kemur það fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540: „Og sem hann kom í musterið, gengu til hans (sem hann var að kenna) prestahöfðingjar og öldungar lýðsins.“