Misnotkun tungumálsins
„Yfirlýsing Hraðfrystihússins-Gunnvarar vegna hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270“ er sorglegt dæmi um misnotkun tungumálsins sem mætti nota sem kennsluefni í orðræðugreiningu. Skoðum hana lið fyrir lið.
- „rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar“ – ef ég skil málið rétt hefði það ekki bara verið rétt, heldur skylt samkvæmt lögum. Það verður ekki ráðið af þessu orðalagi.
- „láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar.“ Hér er látið líta svo út sem um eitthvert matsatriði sé að ræða, en í reglum segir „LHG [...] leiðbeinir um sóttvarnahöfn sem skipi er vísað til í samráði við sóttvarnalækni“.
- „Slík framkvæmd hefði enda verið í samræmi við þær leiðbeiningar, sem viðhafa ber í þessum aðstæðum“ er orðalag sem er notað til að komast hjá að segja að lög og reglur voru beinlínis brotin.
- „Því miður fórst það fyrir“ að tilkynna um smit um borð í skipinu. Á íslensku merkir farast fyrir að eitthvað hafi gleymst eða lent í útideyfu. Það merkir ekki að það hafi beinlínis verið hunsað eða því hafnað eins og þarna var.
- „ábyrgð á þeim mistökum“ – hér er enn notað rangt orð til að breiða yfir alvarleik málsins. Merking orðsins mistök er 'yfirsjón, handvömm, vangá'. En þetta voru engin mistök, heldur einbeittur brotavilji.
- „mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla.“ Þetta er klisja. Að axla ábyrgð merkir 'taka á sig ábyrgð' – ábyrgð sem manni er ekki endilega skylt að bera, og taka afleiðingum gerða sinna. Ekkert bendir til þess að það standi til.
- „Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.“ Gott, en það dregur töluvert úr einlægni afsökunarbeiðninnar að það skuli endurtekið að um mistök hafi verið að ræða.
- „Það var aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu“ – þakka skyldi. Það er örugglega aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stofna lífi sjómanna í hættu, en stórkostlegt gáleysi og brot á reglum og lögum geta jafngilt því.
- „fyrirtækinu þykir þungbært að sitja undir ásökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfsmanna.“ Hér er málinu drepið á dreif – þetta er ekki ásökun, heldur lýsing á staðreyndum. Þetta er sagt þungbært til að reyna að skapa samúð með fyrirtækinu.
- „Ítrekað skal að fyrirtækinu þykir miður að ekki hafi verið brugðist við með réttum og viðeigandi hætti.“ Orðalagið þykir miður er auðvitað ekki í neinu samræmi við alvarleik málsins. Og með réttum og viðeigandi hætti er sakleysislegt orðalag um það sem í raun virðist vera lagaskylda.
- „Nú er verkefnið að styðja við þá áhafnarmeðlimi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins vegna atviksins.“ Hér gefa menn sér að þarna hafi áður ríkt traust. Og atvik er ansi bragðdauf lýsing á málinu.
- Alls staðar er talað um fyrirtækið til að firra einstaklinga ábyrgð – „Fyrirtækið telur ljóst“, „ábyrgð … mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla“, „Fyrirtækið biður … afsökunar“, „fyrirtækinu þykir þungbært“, „fyrirtækinu þykir miður“, „traust … glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins“.
Í þessu máli hefur augljóslega verið brotið gróflega á rétti sjómanna og það má ekki líðast. En það má heldur ekki líðast að misnota tungumálið á þann hátt sem gert er í þessari yfirlýsingu.