Uns

Samtengingin uns (áður rituð unz) er nokkuð algeng í nútímamáli en þó líklega bundin við fremur formlegt ritmál – kemur tæpast fyrir í talmáli. Þetta er tíðartenging sem merkir 'þangað til' og er komin af und es samkvæmt Íslenskri orðsifjabókes var fornt tilvísunarorð og und merkti 'til þess, fram að því' eða eitthvað í þá átt.

Í Íslendingasögum kemur uns samtals 36 sinnum fyrir. Það þarf ekki að skoða dæmin um orðið vandlega til að átta sig á sérkennilegum samnefnara þeirra flestra: Öll nema fjögur tengja tíðarsetningu með sögninni koma. Þetta getur ekki verið tilviljun. Önnur tíðartenging fornmálsins, þar til, tengist ekki ákveðinni sögn á neinn sambærilegan hátt.

Á þessu er hægt að hugsa sér tvær skýringar. Önnur er sú að uns hafi ekki merkt bara 'þangað til' eins og hún gerir í nútímamáli, heldur hafi falist í henni einhver merkingarþáttur til viðbótar sem tengi hana við koma. Það er ekki augljóst hver sá merkingarþáttur gæti verið – og hann er a.m.k. löngu horfinn því að uns hefur engin sérstök tengsl við koma í nútímamáli.

Hin skýringin er sú að þetta sé ritvenja, einhvers konar formúla – höfundar eða skrásetjarar sagnanna hafi lært að venja væri að uns tengdist koma, og hafi fylgt þeirri venju, án þess að hún ætti sér neina merkingarlega skýringu. Ég á ekkert svar við því hvor þessara skýringa sé rétt – og svo gæti vitanlega verið einhver þriðja skýring sem mér hefur ekki dottið í hug.