Þetta reddast

Á undanförnum árum hefur orðtakið þetta reddast orðið þekkt sem einhvers konar einkunnarorð eða lífsspeki Íslendinga, sem lýsi kæruleysi, æðruleysi og óbilandi (jafnvel óraunsærri) bjartsýni í bland. Frægð þess hefur náð út fyrir landsteinana og kannski upphaflega komið að utan; elsta dæmi sem ég þekki um það er frá 1979, þegar danskur blaðamaður fjallaði um það í grein í Weekendavisen Berlingske Aften, og sagði það vera „einkennandi í fari Íslendinga að þeir hafi „Það reddast hugsun“ (det ordner sig)“ að því er Dagblaðið sagði frá.

Snemma árs fékk ég póst frá bandarískum blaðamanni sem vildi ræða við mig um þetta reddast. Hann sagðist hafa komið nokkrum sinnum til Íslands og þegar hann heyrði fyrst talað um þetta orðtak hélt hann að þetta væri bara einhver klisja sem útlendingar tengdu við Íslendinga og þætti skondin. En eftir að hafa kynnst lífinu á Íslandi væri hann kominn á þá skoðun að þetta lýsti í raun og veru lífsmáta margra Íslendinga. Hann skrifaði svo grein um þetta og birti í ritinu Success undir fyrirsögninni „Why We Should All Live Like Icelanders Live“. BBC hefur einnig nýlega fjallað um orðtakið undir fyrirsögninni „The unexpected philosophy Icelanders live by“.

Því hefur verið haldið framþetta reddast sé bein þýðing úr dönsku þar sem det reddes sé notað á sama hátt, en það er tæplega rétt. Vissulega er det reddes danska, en danskir heimildarmenn mínir kannast ekki við að það sé notað á sama hátt og það reddast í íslensku. Á dönsku er sagt det ordner sig, det ordnes, det skal nok gå eða eitthvað slíkt. Þótt elsta dæmi sem ég þekki um germyndina redda sé að finna í blaðinu Gretti á Ísafirði 1894 kemur miðmyndin reddast ekki fyrir á prenti fyrr en um 1960, löngu eftir að danska hætti að hafa áhrif á íslensku. Myndin er oftast höfð innan gæsalappa í upphafi sem bendir til þess að gert sé ráð fyrir að hún sé lesendum ekki vel kunn.

Mér finnst allt benda til þess að þetta reddast sé íslensk nýsmíði, þótt hráefnið sé vissulega að hluta til danskt að uppruna. Hlutirnir hafa nefnilega ekki alltaf reddast á Íslandi. Sambandið þetta reddast kemur fyrst fyrir á prenti 1966 og er sjaldgæft fyrstu árin, en svo verður sprenging í notkun þess upp úr 1980 – og væntanlega eitthvað fyrr í talmáli, eins og danska tilvitnunin í upphafi sýnir. Þetta er athyglisvert – og segir kannski meiri sögu en virst gæti í fljótu bragði. Það er freistandi að ímynda sér að fram að því hafi þurft einhvern til að redda málunum, en með verðbólguhugsunarhættinum eftir 1960 og sérstaklega 1980 hafi fólk farið að trúa því að þetta reddaðist af sjálfu sér, án þess að einhvern geranda þyrfti til.