Tíðni einstakra orðflokka
Notkun kerfisorða – samtenginga, forsetninga, hjálparsagna og persónufornafna – er að mestu leyti óháð textategund og umfjöllunarefni. Tíðniröð þessara orða og hlutfall af texta er því mjög svipað milli texta og einnig á mismunandi tímum, þótt vissulega megi búast við ákveðnum breytingum á notkun einstakra orða. En öðru máli gegnir þegar litið er á inntaksorðin – einkum nafnorð og sagnir, en einnig lýsingarorð. Viðfangsefni hvers texta ákvarðar hvaða inntaksorð eru þar mest notuð, þótt sum þeirra séu vissulega svo almennrar merkingar að búast megi við fjölda þeirra í nánast hvaða texta sem er.
Þegar algengustu inntaksorðin eru skoðuð dugir ekki að líta á orðmyndir, heldur þarf að skoða uppflettiorð þar sem búið er að fella allar beygingarmyndir undir uppflettimyndina. Í töflunum hér að neðan má sjá algengustu uppflettiorð í fjórum orðflokkum – nafnorðum, lýsingarorðum og sögnum, svo og atviksorðum og forsetningum sem steypt er saman í einn flokk. Töflurnar taka til tveggja gagnasafna úr nútímamáli, Íslenskrar orðtíðnibókar 1991 og Markaðrar íslenskrar málheildar 2012, og til samanburðar eru tölur úr Íslendingasögum.
Í nafnorðunum eru orðin maður og ár í efstu sætunum í báðum nútímamálslistunum, enda eru bæði notuð í mjög fjölbreyttu samhengi. Auk þeirra eru dagur, staður, barn og tími á báðum listum. Athyglisvert er að orðið mál, sem hefur ýmsar merkingar, er í þriðja sæti í MÍM en ekki meðal 10 algengustu orða í ÍO (er þar reyndar í 12. sæti þótt það sjáist ekki hér). Það má væntanlega rekja til ólíkrar samsetningar safnanna. Listinn úr Íslendingasögum er allt annars eðlis, þótt maður sé þar líka í efsta sæti– konungur er næstalgengasta nafnorðið, og þarna eru ýmis önnur orð sem bera efni sagnanna glöggt vitni, s.s. skip, fé, faðir og bróðir.
Í lýsingarorðunum eru orð almennrar merkingar áberandi í efstu sætunum – mikill, góður, margur og lítill eru meðal fimm algengustu orðanna á öllum listunum. Orðin nýr og stór koma líka fyrir á báðum nútímamálslistunum. Listinn úr Íslendingasögum sker sig úr sem von er, þegar efstu sætunum sleppir – þar eru áberandi orð sem eru algeng í mannlýsingum eins og illur, sannur, gamall, stór, og svo dauður.
Í sögnunum eru hjálparsagnirnar vera og hafa í efstu sætum allra listanna. Sömu 10 sagnirnar eru á báðum nútímamálslistunum þótt röðin sér örlítið mismunandi. Af þeim koma segja, koma, fara og taka líka fyrir á listanum úr Íslendingasögum. Þar vekur helst athygli sögnin mæla í sjöunda sæti, en hún er fjarri því að vera meðal algengustu sagna í nútímamáli. Eins eru þarna hjálparsagnirnar munu og skulu en tíðni þeirra er hlutfallslega mun minni í nútímamáli – munu er í 18. sæti og skulu í því 29. í MÍM.
Í flokki forsetninga og atviksorða eru sömu 10 orðin í báðum nútímamálslistunum þótt röðin sé eilítið mismunandi. Raunar er þarna bara eitt hreint atviksorð, ekki – hitt eru allt fyrst og fremst forsetningar. Á listanum úr Íslendingasögum eru forsetningarnar til, í, á, um, við og með eins og á hinum listunum þótt röðin sé dálítið önnur – það er athyglisvert að í og til eru álíka algengar að fornu en í nútímamáli er í fjórum til fimm sinnum algengari en til. Auk forsetninganna eru þarna fjögur atviksorð sem ekki eru á nútímamálslistunum – þá, þar, nú og svo.