Misþyrming mannanafna

Nýlega tóku Staksteinar Morgunblaðsins það eftir bloggara nokkrum að uppnefna formann Viðreisnar Tobbu Kötu. Þetta vakti réttmæta hneykslun margra – það er ótrúlegt að uppnefni skuli enn tíðkast í pólitískri umræðu á Íslandi. En þetta er ekki einsdæmi – forsætisráðherra er stundum kölluð Kata Jak eða jafnvel Kata litla í opinberri umræðu, Jóhanna Sigurðardóttir var iðulega kölluð Jóka, og svo mætti lengi telja. Með þessu er auðvitað verið að tala niður til fólks – ekki síst kvenna – og gera lítið úr því.

Önnur skyld leið til tala niður til fólks er sú að kalla það öðru formi nafns síns en það notar sjálft. Hannes Gissurarson var ævinlega nefndur svo framan af, þangað til vinstri menn í stúdentapólitíkinni áttuðu sig á því að hann héti líka Hólmsteinn og fannst fyndið að nefna hann fullu nafni. En Hannes sá við þeim og fór að nota Hólmsteinsnafnið sjálfur. Í fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar höfðu sumir andstæðingar hans til siðs að kalla hann Ólaf Grímsson. Frá síðari árum er alþekkt að Morgunblaðið nefndi Jón Gnarr borgarstjóra venjulega skírnarnafni sínu, Jón Gunnar Kristinsson eða Jón G. Kristinsson. Mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Tungumálið er öflugt valdatæki – í raun öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi býr yfir. Á okkur hvílir sú ábyrgð að beita þessu valdatæki til góðs en ekki til að meiða annað fólk. Fátt er okkur hjartfólgnara en nafnið. Það hefur verið hluti af okkur frá því að við munum fyrst eftir okkur og við samsömum okkur því. Þess vegna á ríkisvaldið ekki að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar gefa börnum sínum eða hvaða nöfn fullorðið fólk kýs sér. Og þess vegna er það alvarleg og ómerkileg árás á fólk að breyta nafni þess, skrumskæla það eða misþyrma á einhvern hátt.