Stafrænn tungumáladauði
Hugtakið „stafrænn tungumáladauði“ (digital language death) hefur talsvert verið notað í umræðu um stöðu og lífvænleik tungumála upp á síðkastið. Það vísar til þess þegar tiltekin tungumál eða mállýskur verða smátt og smátt undir í stafrænum heimi – eru ekki nothæf eða notuð á netinu. Þar með missa þau notkunarsvið sem er sífellt að verða mikilvægara og þetta veikir málin óhjákvæmilega. Enginn vafi er á því að þetta er gagnlegt hugtak, en ýmislegt er enn óljóst í sambandi við merkingu þess og notkun. Það er t.d. óljóst hvort stafrænn dauði leiðir á endanum óhjákvæmilega til algers dauða, eða hvort tungumál getur lifað góðu lífi í raunheiminum þótt það verði undir á netinu.
Ungverski málfræðingurinn András Kornai skrifaði þekkta grein um stafrænan tungumáladauða árið 2013. Þar tók hann nýnorsku sem dæmi um tungumál sem væri hlutfallslega margfalt minna notað á netinu en í raunheimi og virtist ekki eiga sér framtíð í stafrænum heimi. Nýlega sá ég mjög áhugaverða norska frétt um netverslun á nýnorskusvæði sem hættir að nota nýnorsku á vef sínum og skiptir yfir í bókmál til að vera sýnilegri á netinu. Miklu fleiri nota bókmálsmyndir í leit á netinu þannig að síður á nýnorsku koma síður upp. Verslunarstjórinn segir að vefurinn fái miklu fleiri heimsóknir eftir breytinguna. Þetta er skýrt dæmi um þróun í átt til stafræns dauða nýnorskunnar.
Staða íslenskunnar er vitanlega önnur en nýnorsku – í Noregi stendur valið milli tveggja opinberra og jafnrétthárra mála, bókmáls og nýnorsku, en ekki milli þjóðtungu og erlends máls eins og hér. En við þurfum samt að velta því fyrir okkur hvort eitthvað sambærilegt gæti gerst – eða sé að gerast – hér á landi. Eru einhver fyrirtæki eingöngu með vefsíður á ensku þótt markaðssetningu þeirra sé líka beint til Íslendinga? Notum við íslensk leitarorð á netinu þegar kostur er eða leitum við á ensku þótt við séum að leita að íslenskum vörum eða umfjöllunarefnum?
Þetta getur orðið vítahringur – eftir því sem enskan er meira notuð á vefsíðum og í leitum, þeim mun minni hvati er til að hafa góða vefi á íslensku. Þar að auki er hætt við að algrím leitarvélanna leiði til þess að vefsíður á íslensku komi síður upp. Hugsum út í þetta – notum íslensku þar sem kostur er!