svægi

Nýlega rakst ég á orðið svægi í fyrirsögn og frétt á Vísi. Ég kannaðist ekki við þetta orð og fann það ekki í orðabókum svo að ég gúglaði og fann örfá dæmi um það frá allra síðustu árum. Eftir að skoða þau þóttist ég vera farinn að nálgast merkinguna en spurði son minn til öryggis – hann skilur nútímamál betur en ég. Hann staðfesti að ég væri á réttri leið. Þetta er sem sé aðlögun á enska slanguryrðinu swag sem er skýrt í orðabók sem „a fashionable and confident appearance or way of behaving“ – sem sagt sjálfsörugg framkoma og í takt við tímann.

Þetta orð fellur fullkomlega að íslenskri hljóðskipun – við höfum orð sem byrja á svæ-, s.s. svæðisvæfa o.fl., og hvorugkynsorð sem enda á -ægi, s.s. vægilægi. Það er líka auðvelt að bæta við skyldum orðum af sömu rót. Þannig er hægt að nota sögnina svægja (sbr. nægjaslægja o.fl.) um að hegða sér eins og nafnorðið lýsir – í ensku er sögnin swagger skýrð sem „to walk or behave in a way that shows that you are very confident and think that you are important“. Einnig væri hægt að nota lýsingarorðið svægur (sbr. frægurslægur o.fl.) til að lýsa þeim sem sýna þessa hegðun, og um þau mætti nota nafnorðið svægir. Þarna eru komin fjögur splunkuný orð í málið.

Það er sérstaklega athyglisvert hvernig staðið er að aðlögun orðsins svægi að íslensku málkerfi. Í fljótu bragði gæti virst eðlilegast að taka það upp í íslensku í myndinni svag, en það er fyrir í málinu í sambandinu vera svag fyrir einhverju, auk þess sem enska sérhljóðið er töluvert frá íslensku a í framburði. Þess í stað er bætt -i við orðið og þá verður g-ið sjálfkrafa að j í framburð, og sérhljóð á undan ji verður óhjákvæmilega að tvíhljóði. Þannig fæst myndin svægi.

Orðið svægi er gott dæmi um það hvernig virk orðmyndun getur beitt aðlögun tökuorða til að auðga orðaforðann og halda tengingu málsins við samtímann án þess að gefa nokkurn afslátt af kröfum um vandaða íslensku. Það er ekki hægt að hafa neitt á móti þessu orði nema upprunann – en eiga orð sem falla vel að málinu að gjalda uppruna síns? Það er líka mikill kostur að auðvelt er að mynda skyld orð og koma þannig upp heilli fjölskyldu. Mér finnst þetta frábær orð og sýna lífskraft málsins vel.