Samhljóðaklasar í upphafi orða

Þeim fer líklega fækkandi á þessum stafrænu tímum sem hafa flett prentuðum orðabókum, en þeim hefur varla dulist að fyrirferð bókstafanna er mjög mismikil – fá orð byrja á sumum bókstöfum, en fjölmörg á öðrum. Í öllum íslenskum orðabókum – og væntanlega orðabókum allra skyldra tungumála – er bókstafurinn s fyrirferðarmestur. Ástæðan fyrir því hvað s er algengt í upphafi orða er sú að það er ekki vandfýsið á hljóðfræðilegt umhverfi, heldur leyfir marga og fjölbreytta samhljóðaklasa á eftir sér. Samhljóðin eru nefnilega mjög ólík að þessu leyti og falla í nokkra hópa eftir því hvaða afstöðu þau geta haft til eftirfarandi sérhljóðs.

Ef j stendur á undan sérhljóði í upphafi orðs verður það alltaf að standa næst sérhljóðinu. Við höfum orð eins og jata, , él (þar sem é stendur fyrir je), jól, júgur, jæja, jörð o.s.frv., en þið getið prófað sjálf að stinga einhverju samhljóði á milli j og hvaða sérhljóðs sem er – það gengur ekki. Svipað er með v – það getur staðið næst á undan ýmsum sérhljóðum en milli þess og sérhljóðs getur ekkert samhljóð staðið nema j, í orðum sem eru rituð með évér, vél, og samsetningum af þessum orðum. Sama máli gegnir um m, n, l og r – þau geta staðið næst ýmsum sérhljóðum, en milli þeirra og sérhljóðs getur ekkert verið nema j, eins og í mjakast, njóta, ljár, rjúfa.

Lokhljóðin p, t, k, b, d, g eru enn sveigjanlegri. Þau geta vitaskuld staðið næst sérhljóði, og einnig haft j milli sín og sérhljóðsins, eins og pjátur, tjón, kjör, bjóða, djöfull, gjósa – eða hljóð úr hópnum n, l, r, eins og plástur, treysta, knöttur, blettur, drafa, gnísta. Öll nema p og b geta einnig haft v milli sín og sérhljóðs, eins og tveir, kver, dvergur, guð (þar sem auðvitað er borið fram v þótt það sé ekki sýnt í stafsetningu). Milli lokhljóðanna og sérhljóðsins geta líka staðið tvö samhljóð, að því tilskildu að það fyrra sé eitt af n, l, r og það seinna sé j. Þannig höfum við orð eins og prjóna, trjárækt, kljúfa, brjálast, drjúpa, gljái. Önghljóðin f, þ og h haga sér svipað – við höfum fjúka, þjást, hjóla og flýja, þrífa, hlaupa, en líka fljótur, þrjár, hnjúkur með n/l/r og j á undan sérhljóðinu.

Þá er s eftir. Það getur auðvitað staðið næst öllum sérhljóðum – saga, sár, selja, sitja, sími, sorp, sól, sund, súgur, sæla, sökkva – og líka haft j milli sín og margra sérhljóða, eins og í sjatna, sjá, sjoppa, sjón, sjúga, sjötti. Það getur líka haft tvö samhljóð milli sín og sérhljóðsins, ef það seinna er j, l eða rsljór, snjáður, spretta, splundra, strákur, skrafa. En svo getur s eitt samhljóða haft þrjú samhljóð milli sín og sérhljóðs í stöku tilvikum. Næst á eftir s verður þá að koma t eða k, þar á eftir r, og að lokum j næst sérhljóðinu. Þannig höfum við orð eins og strjáll, strjúgur, strjúka, strjúpi, skrjáfa, skrjóður – og varla öllu fleiri.

Þótt hér hafi verið reynt að draga fram reglur um það hvernig samhljóð geti raðast saman í upphafi orðs verður að leggja áherslu á að því fer fjarri að allir möguleikar sem rúmast innan þessara reglna séu nýttir í raun. Þótt til séu orð sem byrja á klj- eru engin sem byrja á *tlj- eða *plj; þótt til séu orð sem byrja á kn- eru engin sem byrja á *tn- eða *pn; o.s.frv. Í sumum tilvikum er um að ræða það sem kalla má kerfisgöt – orð sem hljóðkerfið leyfir ekki. Þannig er algengt að samhljóð með sama myndunarstað geti ekki staðið saman og því geta engin orð í málinu byrjað á *tn-, *tl-, *dn-, *dl- – eða á *pv-, *bv-. Í öðrum tilvikum er um að ræða tilviljanagöt – orð sem brjóta engar reglur og gætu verið til, en eru það ekki.

Lítum t.d. á orðið flok. Það finnst ekki í neinum íslenskum orðabókum og er ekki íslenskt orð, að því er næst verður komist. En það virðist bara vera tilviljun, því að þetta gæti vel verið íslenskt orð. fl- kemur fyrir í upphafi margra íslenskra orða, og flo- líka (flot, flos, flog, flokkur). Einnig eru dæmi um -ok í enda orðs (rok, fok) og jafnvel -lok (lok). Þetta orð brýtur því ekki hljóðskipunarreglur málsins á nokkurn hátt, og við getum sagt að þarna sé bara um tilviljunargat að ræða; þetta orð gæti vel verið til. Öðru máli gegnir um orðið *tlok. Það er ekki heldur til í íslensku; en það sem meira er, það gæti ekki verið til. *tl- í framstöðu er ekki til í málinu eins og áður segir, þannig að þetta er kerfisgat.

Það gæti sem sagt vel farið svo að flok yrði einhvern tíma tekið upp sem nýyrði, en það er nánast útilokað að nokkrum nýyrðasmið dytti í hug að koma orðinu tlok inn í íslensku. Vissulega eru þó einstöku sinnum tekin inn í málið orð sem brjóta reglur þess, en þau verða alltaf framandi og hafa tilhneigingu til að laga sig að kerfinu.