Tengsl stofngerðar og endingar

Meðal þeirra reglna sem við tileinkum okkur í máltökunni og fæstar eru nefndar í bókum nema þá óbeint eru ýmiss konar tengsl stofngerðar og beygingarendingar. Þessar reglur eru misjafnlega nákvæmar og misjafnlega víðtækar. Sumar eru undantekningarlausar en taka aðeins til örfárra orða, aðrar taka til mikils fjölda orða en eru frekar tilhneiging en föst regla, og svo er allt þar á milli. Þess vegna tekur það tíma fyrir börn á máltökuskeiði að átta sig á þeim öllum – þau þurfa miklar upplýsingar, þurfa að heyra mikið af máli í umhverfi sínu, til að geta tileinkað sér öll þessi mynstur sem eru ótalmörg – hér verða örfá nefnd.

Flest karlkynsorð sem hafa sterka beygingu (enda á -s eða -ar í eignarfalli eintölu) enda í nefnifalli fleirtölu annaðhvort á -ar, eins og hestar, eða -ir, eins og vinir. Við þurfum að læra á máltökuskeiði hvor endingin á við hverju sinni. En það er samt ekki svo að við séum algerlega án leiðsagnar í þessu námi. Þarna eru nefnilega ákveðin tengsl milli stofngerðar og fleirtöluendingar – tilhneigingin er sú að orð með grannt stofnsérhljóð (a, e, i, o, u, (y), ö) og eitt samhljóð þar á eftir fái -ir-fleirtölu, en önnur orð fái -ar-fleirtölu. Af fyrrnefnda hópnum má nefna vinur vinir, dalurdalir, refurrefir, bolurbolir, hamurhamir, svanur svanir, liturlitir, herherir, o.m.fl.

Þessi tilhneiging er vissulega fjarri því að vera undantekningarlaus. Orð eins og gestur og brestur hafa t.d. sömu stofngerð og hestur en fá samt -ir-fleirtölu. Orð eins og dagur og vogur-ar-fleirtölu þótt þau falli undir það mynstur sem oftast fær -ir. Svo mætti lengi telja. Það er samt nokkuð ljóst að börn átta sig á þessari tilhneigingu í máltökunni og nýta sér hana – fyrir þeim er -ar sjálfgefin fleirtala sem þau alhæfa iðulega og nota þar sem hún á ekki við en læra svo undantekningarnar smátt og smátt. Þetta sést líka í málbreytingum – refur var t.d. refar í fleirtölu í fornu máli og dalur oftast dalar. En nú hafa þessi orð alltaf -ir-fleirtölu, refir og dalir, eins og dæmigert er fyrir þessa stofngerð.

Flest karlkynsorð sem hafa -(j)ö í stofni enduðu áður á -u í þolfalli fleirtölu – firðir um fjörðu, kettir um köttu o.s.frv. Nú hafa þessi orð fengið -i í þolfalli fleirtölu og þar með lagað sig að öðrum orðum sem enda á -ir í nefnifallinu – beygjast firðir um firði, kettir um ketti o.s.frv. En stofnsérhljóðið fylgdi óhjákvæmilega með – beygingin firðir um *fjörði, kettir um *kötti er óhugsandi. Orð af þessum flokki enda yfirleitt á -i í þágufalli eintölu og -ar í eignarfalli – firði – fjarðar, ketti kattar. En sum þeirra, t.d. mökkur, hafa tilhneigingu til að missa endinguna í þágufalli og fá -ar í eignarfalli – beygjast mökk mökks í stað mekkimakkar. Þar með breytist stofnsérhljóðið líka –  *mekk – *makks er óhugsandi.

Langflest kvenkynsorð (önnur en veika beygingin, orð sem enda á -a í nefnifalli eintölu) enda á -ar í eignarfalli eintölu – myndmyndar, skálskálar, bókbókar, helgihelgar o.s.frv. Fáein orð fá þó eignarfallsendinguna -ur. Undir það falla einkum frændsemisorðin móðir, dóttir og systir og svo orð sem enda á -ík: vík, tík, flík, brík og samsetningar af þeim. Sum þeirra fá alltaf -ur í eignafalli, a.m.k. vík, en hin flakka milli -ar og -ur. En það er greinilegt að málnotendur hafa tilfinningu fyrir þessum tengslum milli -ík í stofni og -ur-endingar. Það má sjá á þeim fjölda tökuorða sem enda á -ík og fá þessa sjaldgæfu eignarfallsendingu, þrátt fyrir að -ar sé annars yfirgnæfandi: pólitík, rómantík, klassík, lýrík, grafík, kómík, músík o.s.frv.

Margvísleg mynstur leiðbeina okkur þannig um beygingu og eru misjafnlega sterk – sum eru nánast ófrávíkjanleg eins og tengsl milli stofngerðar og endingar í orðum á við köttur og fjörður, önnur eru tilhneigingar sem eiga sér ótal undantekningar eins og tengsl milli stofngerðar og fleirtöluendingar í orðum á við hestur og vinur. Svo eru líka fjölmörg dæmi um að engar eða mjög óljósar reglur séu til leiðsagnar, og þá má búast við málbreytingum eins og í sterkum kvenkynsorðum þar sem hurðar er komið upp sem fleirtala til hliðar við hurðir o.s.frv.