Fram fyrir skjöldu

Langflest íslensk karlkynsnafnorð enda í nefnifalli fleirtölu annaðhvort á -ar (hestur – hestar, hani – hanar) eða -ir (vinur – vinir, Dani – Danir). Nokkur karlkynsorð enda reyndar á -ur í nefnifalli fleirtölu en það er afmarkaður og lokaður hópur – orð komin af lýsingarhætti þátíðar (eigandi – eigendur, nemandi – nemendur, bóndi – bændur, frændi – frændur, fjandi - fjendur), tvö frændsemisorð (faðir – feður, bróðir – bræður) og þrjú að auki (fingur – fingur, fótur – fætur, vetur – vetur). Öll orðin sem fá -ur-fleirtölu hafa það sameiginlegt að þolfall fleirtölu er eins og nefnifallið.

Í öllum öðrum karlkynsorðum er þolfallið hins vegar eins og nefnifall að frádregnu -r (hestar – hesta, hanar – hana; vinir – vini, Danir – Dani).  Þetta er undantekningarlaust í nútímamáli – en þannig hefur það ekki alltaf verið. Í fornu máli var hópur karlkynsorða (svonefndir u-stofnar) sem hafði endinguna -ir í nefnifalli fleirtölu en endaði þó ekki á -i í þolfalli. Flest þessara orða hafa stofnsérhljóðið (j)ö í nefnifalli – höttur, knöttur, köttur, völlur, þröstur; björn, fjörður, hjörtur, kjölur, skjöldur o.fl. Einnig voru þetta orð eins og háttur, þáttur, friður, viður, tugur o.fl. Þolfall fleirtölu þessara orða endaði áður á -u: kettir – köttu, vellir – völlu, firðir – fjörðu, skildir – skjöldu, hættir – háttu, viðir – viðu, o.s.frv.

Nú hefur þolfall fleirtölu allra þessara orða breyst, og þau beygjast í nútímamáli eins og önnur karlkynsorð sem hafa -ir í nefnifalli fleirtölu (vinur, Dani o.s.frv.) – þ.e., fá -i í stað -u í þolfalli fleirtölu. Flest þessara orða hafa sérhljóðavíxl í stofni og ákveðin tengsl eru milli stofnsérhljóðs og endingar, þannig að um leið og endingin breytist verður stofnsérhljóð þeirra það sama og í nefnifallinu (köttu verður ketti, sbr. kettir; fjöu verður fii, sbr. fiir; háttu verður hætti, sbr. hættir; o.s.frv.). Það eru ótal önnur dæmi um að beyging orða hafi breyst frá fornu máli, en þessi breyting er sérstök að því leyti að með henni hvarf í raun heill beygingarflokkur úr málinu – það eru ekki eftir nein orð sem beygjast á þennan hátt.

Þessi breyting er mjög auðskiljanleg og eðlileg. Yfirgnæfandi meirihluti karlkynsorða sem enduðu á -ir í nefnifalli fleirtölu hafði þolfall sem endaði á -i (vinir – vini) og þau orð voru því í miklu betri stöðu til að hafa áhrif á orðin sem höfðu þolfall sem endaði á -u (kettir – köttu) en öfugt. Við það bætist að eldri beyging orðanna gekk gegn þeirri meginreglu í beygingu karlkynsorða sem áður hefur verið nefnd, að þolfall fleirtölu sé eins og nefnifall að frádregnu -r. En þótt eldri beyging orðanna sé alveg horfin úr almennu máli bregður henni fyrir í einstöku tilvikum, einkum í föstum orðasamböndum eins og ganga fram fyrir skjöldu, koma einhverjum í opna skjöldu, fara vestur á fjörðu, o.fl. Einnig er myndin háttu nokkuð algeng.