Beyging kvenmannsnafna

Beyging kvenmannsnafna, annarra en þeirra sem hafa veika beygingu og enda á -a, er með þrennu móti. Öll eru þau annaðhvort endingarlaus eða enda á -ur í nefnifalli (Kristín, Sigrún, Björk, Hrönn; Sigríður, Hildur), og öll enda þau á -ar í eignarfalli – eða hafa gert fram undir þetta. En munurinn kemur fram í þolfalli og þágufalli, sem alltaf fylgjast að eins og í öðrum kvenkynsorðum. Sum nöfnin enda á -i í þessum föllum (Sigríði, Hildi), önnur á -u (Kristínu, Sigrúnu), og enn önnur eru endingarlaus (Björk, Hrönn). Á seinni árum eru þó farin að koma fram ýmis tilbrigði í beygingu margra þessara nafna.

Sú breyting sem mest ber á er að mörg nöfn sem hafa endað á -u hafa nú tilbrigði með -i. Þannig var Margrét áður Margrétu í þolfalli og þágufalli en er nú langoftast Margréti. Margrétu verkar dálítið formlegt eða uppskrúfað, og Margréti virðist vera algengari myndin allt frá miðri 19. öld a.m.k., ef marka má tímarit.is. Nöfn sem enda á -rún (Bergrún, Guðrún, Heiðrún, Kristrún, Sigrún, Sólrún o.fl.) hafa einnig oft -i-endingu í þessum föllum, a.m.k. sum hver. Á tímarit.is má finna dæmi um Guðrúni og Sigrúni frá því um 1900, og í Nöfnum Íslendinga er sagt að -i-ending í þessum nöfnum sé staðbundin. Ýmis önnur dæmi um myndir með -i af nöfnum sem venjulega hafa -u í þolfalli og þágufalli mætti nefna, s.s. Elíni, Elísabeti, Ingibjörgi, Kristíni o.fl.

Áhugavert dæmi er Berglind, sem er nýlegt nafn þannig að beyging þess styðst ekki við langa hefð. Seinni liður þess er nafnorðið lind, sem er endingarlaust í þolfalli og þágufalli, og því mætti búast við að sama gilti um Berglind. En samsett kvenmannsnöfn fá yfirleitt endingu í þessum föllum þótt seinni liður þeirra einn og sér sé endingarlaus – laug um laug, en Sigurlaug um Sigurlaugu, borg um borg, en Valborg um Valborgu, rún um rún, en Sigrún um Sigrúnu, ey um ey, en Laufey um Laufeyju, o.s.frv. Þess vegna hafa margir málnotendur tilhneigingu til að gefa nafninu Berglind endingu í þessum föllum – stundum -u en þó frekar -i. Báðar endingarnar eru skiljanlegar.

Það eru líka ýmis dæmi um víxl milli -u-endingar og endingarleysis í kvenmannsnöfnum. Margir nafnberar og aðrir málnotendur fella sig ekki við -u-endingu í þolfalli og þágufalli ýmissa nafna og vilja heldur hafa þau endingarlaus. Þetta á ekki síst við samsett nöfn með seinni liðina -ey (Fanney, Laufey o.fl.) og -ný (Bergný, Signý o.fl.) – þessi nöfn gátu raunar einnig verið endingarlaus í þolfalli og þágufalli í fornu máli. En svo er líka einhver tilhneiging til að bæta -u-endingu við samsett nöfn sem áður voru endingarlaus, t.d. nöfn með seinni liðinn -rós (Bergrós, Sigurrós). Ósamsetta nafnið Björk fær líka stundum -u í þolfalli og þágufalli, sennilega fyrir áhrif frá nöfnum eins og Björg.

En það er ekki bara þolfall og þágufall ýmissa kvenmannsnafna sem er á hreyfingu. Sú tilhneiging að -u-ið í þolfalli og þágufalli kvenkynsorða sem enda á -ing leggi einnig undir sig eignarfallið er þekkt, og hún nær líka til kvenmannsnafna. Eignarfallsmyndir eins og Guðrúnu, Sigrúnu, Ingibjörgu, Þorbjörgu, Áslaugu, Guðlaugu, Sólveigu o.fl. eru (misjafnlega) þekktar og a.m.k. sumar nokkurra áratuga gamlar. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að þessar myndir komi upp. Hvort tveggja er, að yfirgnæfandi meirihluti kvenkynsorða sem enda á -u í þolfalli og þágufalli endar líka á -u í eignarfalli (veika beygingin, saga – sögu, kona – konu o.s.frv.), og með þessu móti falla orðin að því meginmynstri kvenkynsorða að hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu.

Í kvenmannsnöfnum sem enda á -i í þolfalli og þágufalli eru aðstæður nokkuð aðrar en í nöfnunum sem hafa -u í þessum föllum – -i-nöfnin verða ekki fyrir sams konar þrýstingi frá hinum geysistóra hópi veikra kvenkynsorða með -u í aukaföllunum. Samt sem áður má búast við einhverri tilhneigingu til að fækka mismunandi myndum, og sú tilhneiging kemur vissulega fram. Hægt er að finna á netinu dæmi um eignarfallsmyndirnar Unni, Sigríði, Hildi, Margréti o.fl. í stað Unnar, Sigríðar, Hildar, Margrétar. Ég hef hins vegar ekki fundið dæmi þar sem breytingum á þolfalli og þágufalli annars vegar og eignarfalli hins vegar slær saman, þ.e. að -i komi í stað -u í þolfalli og þágufalli, og það -i breiðist síðan út í eignarfallið. Undantekning er að vísu Margrét en þar er -i eiginlega löngu orðið fast.