Blær

Íslensk kvenkynsorð hafa aldrei fleiri en þrjár mismunandi myndir í eintölu, og eru ævinlega eins í þolfalli og þágufalli. Undantekning frá þessu er þó kvenmannsnafnið Blær, ef það er beygt eins og t.d. er gert á Málið.is (þar segir reyndar að það „beygist líklega“ svona), þ.e. Blær – Blæ – Blævi – Blævar. Nafnorðið blær er og hefur alltaf verið karlkynsorð, og enginn vafi leikur á karlkynsbeygingu þess – blær – blæ – blæ – blæs. En hvernig á að beygja það sem kvenmannsnafn?

Blær var fyrst notað sem kvenmannsnafn í Brekkukotsannál Halldórs Laxness árið 1957. Það var fyrst gefið stúlku árið 1973 en varð vinsælt sem karlmannsnafn seint á síðustu öld. Eftir að ákvæðið „Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn“ var sett í lög um mannanöfn árið 1991 var talið óheimilt að gefa stúlkum það, þar eð um karlkynsorð væri að ræða sem þegar væri í notkun sem karlmannsnafn. Árið 2013 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi synjun mannanafnanefndar á að gefa stúlku nafnið, og með lögum um kynrænt sjálfræði árið 2019 var flokkun nafna í karlmanns- og kvenmannsnöfn felld úr gildi. Nú er því heimilt að gefa bæði drengjum og stúlkum nafnið Blær.

Að mínu mati væri langsamlega eðlilegast að láta orðið halda beygingu sinni og beygjast Blær – Blæ – Blæ – Blæs, rétt eins og karlmannsnafnið Blær og samnafnið blær. Einnig kæmi til greina að hafa eignarfallið frekar Blævar, a.m.k. í kvenmannsnafninu, vegna þess að -ar er eignarfallsending bæði í karlkyni og kvenkyni. Það er engin nauðsyn að breyta um beygingu þótt orðið sé gert að kvenmannsnafni. Til samanburðar má benda á karlmannsnafnið Sturla sem beygist eins og kvenkynsorð, Sturla – Sturlu – Sturlu – Sturlu, sbr. stelpa – stelpu – stelpu – stelpu. Sama máli gegnir um nafnið Skúta sem er notað nú á dögum þótt sjaldgæft sé, Órækja sem ekki er notað lengur, viðurnefnið Bjóla og fleiri.

En vilji fólk greina kvenmannsnafnið frá karlmannsnafninu í beygingu liggur beinast við að beygja það Blær – Blævi – Blævi – Blævar, þ.e. láta það enda á -i í þolfalli og þágufalli. Beygingin fylgir þá sama mynstri og beyging fjölda kvenmannsnafna sem enda á -ur í nefnifalli, s.s. Hildur, Gerður o.s.frv., nema nefnifallið er -r en ekki -ur vegna þess að stofninn endar á sérhljóði, og -v- er skotið inn milli stofns og endingar til að komast hjá því að tvö sérhljóð standi saman. Þetta á sér þá stoð að þótt blæ – blæ – blæ – blæs sé hin venjulega beyging orðsins að fornu kemur -v- stundum fyrir í beygingu þess í eldra máli – beygingin er þá blær – blæ – blævi – blævar, hliðstætt snær – snæ – snævi – snævar.

Beygingin Blær – Blæ – Blævi – Blævar á sér hins vegar enga stoð í nútímamáli. Þau fáu karlkynsorð sem áður enduðu á -vi í þágufalli hafa fyrir löngu misst endinguna nema í einstöku föstum orðasamböndum, eins og snævi þakinn. Í kvenkyni er þessi beyging enn fráleitari. Kvenmannsnöfn sem enda á -(u)r í nefnifalli fá alltaf -i í þolfalli og þágufalli bæði að fornu og nýju. Aðalmálið er þó að engin kvenkynsorð hafa fjórar mismunandi myndir í eintölu í nútímamáli, og öll kvenkynsorð eru eins í þolfalli og þágufalli. Beygingin Blær – Blæ – Blævi – Blævar er því í algeru ósamræmi við málkerfið.

Auðvitað er – sem betur fer – enginn sem getur mælt fyrir um hvernig beygja skuli nöfn fólks. Þótt mannanöfn séu eini þáttur íslensks máls sem lög gilda um segja þau aðeins að nöfn skuli hafa eignarfallsendingu, og það hefur Blær, hvernig sem orðið er beygt að öðru leyti. Auðvitað heldur fólk áfram að beygja þetta nafn – og önnur orð málsins – eins og það vill. Mér finnst samt óheppilegt að verið sé að búa til beygingu sem ekki á sér neina stoð í málkerfinu.