Málfarslegir fordómar

Ef við værum að skoða heimasíðu einhvers þjónustufyrirtækis og þar kæmi fram að einn starfsmaðurinn glímdi við geðsjúkdóm, eða væri dökkur á hörund, eða samkynhneigður, eða múslimi, eða hreyfihamlaður, eða frá Austur-Evrópu, eða með þroskaskerðingu – myndi það draga úr trausti okkar á þessu fyrirtæki og jafnvel koma í veg fyrir að við skiptum við það? Vonandi ekki. Ég er a.m.k. nokkuð viss um að við myndum ekki segja frá því ef svo væri – við vitum flest að slíkt væru fordómar og viljum ekki sýnast fordómafull.

Það samt ein undantekning frá því að fólk forðist að bera fordóma sína á torg. Mörgum þykja nefnilega málfarslegir fordómar sjálfsagðir og eðlilegir og ekkert að því að viðra þá við ýmis tækifæri. Nýlega sá ég færslu í málfarshópi á Facebook þar sem höfundur sagðist hafa rekist á setninguna „Mig hlakkar til að vinna með þér“ á heimasíðu snyrtistofu og bætti við: „ekki mjög traustvekjandi, fannst mér allavega“. Eins og við var að búast spratt af þessu töluverð hneykslun – ekki á fordómunum, heldur á málfarinu á vefsíðunni.

Það sem mér fannst athyglisverðast – og dapurlegast – var umsögnin „ekki mjög traustvekjandi“. Hvað merkir hún eiginlega í þessu samhengi? Tengir fólk virkilega saman málfar og vinnubrögð og vill ekki skipta við snyrtistofuna vegna þess að það búist við óvandaðri vinnubrögðum hjá þeim sem nota ekki „rétt“ fall á frumlagi? Eða hefur fólk skömm á þeim sem tala ekki „rétt“ og vill ekki skipta við stofuna þess vegna? Hvort sem heldur er sýnir fordóma sem eru algerlega óviðunandi.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Ég hef iðulega séð svipaða fordóma, og miklu verri, á Facebook og í athugasemdadálkum vefmiðla – fordóma þar sem meintir hnökrar á málfari fólks eru taldir bera vott um að því sé ekki treystandi, andlegu atgervi þess sé ábótavant, það sé latt og hirðulaust, og svo mætti lengi telja. Auðvitað eru þetta fordómar – engu betri en mismunun vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, litarháttar, trúarskoðana, stjórnmálaskoðana o.fl. sem er bönnuð í stjórnarskrá.

Þetta er rangt. Þetta er ljótt. Þetta er óþolandi. Hættum þessu!