Samræmd próf
Í dag er haldið samræmt könnunarpróf í íslensku í 9. bekk, og af því tilefni fór ég að velta fyrir mér í hverju væri verið að prófa. Ég hef oft gagnrýnt samræmdu prófin harðlega fyrir ýmislegt, en alvarlegasta gagnrýnisatriðið er að þar var, a.m.k. til skamms tíma, lögð ofuráhersla á „rétt“ mál og „rangt“. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta alvarlegt er að þarna er nemendum mismunað eftir málkennd – eftir því hvaða málfar þeir hafa tileinkað sér á máltökuskeiði og er inngróið í málkerfi þeirra.
Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði – móðurmál okkar – er hluti af okkur sjálfum, mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar. Þess vegna er ótækt að innræta fólki, í skólum eða á öðrum vettvangi, að það mál sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Flokkun fólks eftir slíkum málfarsatriðum, t.d. á prófum, er engu betri en mismunun eftir kynferði, skoðunum, trú, kynhneigð o.s.frv. sem er bönnuð í 65. grein Stjórnarskrár. Að prófa í slíkum atriðum er alls ekki sambærilegt við að prófa í þekkingaratriðum sem nemendurnir læra í skólanum, svo sem orðflokkagreiningu – án þess að ég sé að mæla sérstaklega með prófum úr henni.
Nú veit ég auðvitað ekki í hverju var verið að prófa í dag – samræmd próf eru ekki lengur aðgengileg. Eina vísbendingin er kynningarpróf sem er að finna á vef Menntamálastofnunar. Ég skoðaði það og það olli mér miklum vonbrigðum. Af 19 spurningum í málnotkunarhluta prófsins snúast 8 – átta – um „gott mál“, og „ekki gott mál“, þ.e. „rétt“ og „rangt“, og þar af kemur „þágufallssýki“ fyrir í fjórum spurningum og hvor annar, ég vill og „nýja þolmyndin“ í einni hvert. Það hefur verið sýnt fram á að „rétta“ málnotkunin í þessum atriðum er í ósamræmi við máltilfinningu verulegs hluta málnotenda og því ætti alls ekki að prófa í þessu að mínu mati.
Eins og áður segir er þetta kynningarpróf, og það er hugsanlegt að prófið sem lagt var fyrir í morgun sé allt öðruvísi – ég vona að svo sé. En sé svo er það líka mjög alvarlegt því að kynningarprófið hlýtur að vera ætlað til þess að gefa nemendum vísbendingu um það við hverju þeir megi búast, og á hvað þeir eigi að leggja áherslu í prófundirbúningnum. Ef verulegt ósamræmi er á milli áhersluatriða í kynningarprófinu og prófinu sjálfu er því verið að blekkja nemendur og leiða þá á villigötur.