Klukkan er tvö

Þegar við tilgreinum tímasetningu notum við töluorð í hvorugkyni – segjum klukkan er eitt / tvö / þrjú / fjögur.  Við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum yfirleitt ekki eftir því að þetta sé neitt skrítið en það veldur oft heilabrotum hjá þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál. Lýsingarorð og beygjanleg töluorð (einn, tveir, þrír, fjórir) sem standa sem sagnfyllingar sambeygjast venjulega frumlaginu í kyni og tölu – við segjum hrútarnir eru tveir, ærnar eru þrjár, lömbin eru fjögur. Vegna þess að klukka er kvenkynsorð mætti þess vegna búast við því að við segðum *klukkan er ein / tvær / þrjár / fjórar, en það er málleysa – það er rangt mál vegna þess að það er ekki málvenja nokkurs. En hvers vegna notum við ekki kvenkyn?

Þess hefur verið getið til að þetta megi skýra með því að þarna sé nafnorð fallið brott – þetta hafi upphaflega verið klukkan slær eitt / tvö högg / slög eða eitthvað slíkt. Einnig hafi komið til áhrif frá dönsku þar sem sagt er klokken er et (kynjamunur kemur ekki fram í öðrum töluorðum þar) og úr þessu hafi orðið klukkan er eitt / tvö o.s.frv. – þar er reyndar líka gert ráð fyrir því að uppruninn sé í klokken er slået et. Vissulega er hugsanlegt að dönsk áhrif spili þarna inn í, en sú skýring er samt óþörf og dugir heldur ekki til. Við notum líka hvorugkyn í klukkan er (orðin) margt þar sem brottfall nafnorðs kemur ekki til greina. Það sem hér skiptir máli er að við erum ekki að telja klukkur þegar við segjum hvað klukkan er, enda orðið klukka alltaf í eintölu.

Þegar við segjum klukkan er tvö erum við ekki að vísa til tiltekinnar klukku og töluorðið vísar því ekki til nafnorðsins klukka heldur til óhlutstæðra tímaeininga. Það sést m.a. á því að það er mjög óeðlilegt að segja ?klukkurnar eru tvö jafnvel þótt margar klukkur séu í kringum mann. Ef sagt er klukkurnar eru (allar) tvö er vísað til þess tíma sem klukkurnar sýna, ekki þess hvað klukkan er í raun og veru (þótt vitanlega megi búast við að þetta fari saman). Vegna þess að töluorðið vísar ekki til nafnorðsins klukka á það ekki að samræmast því í kyni og tölu – og getur ekki samræmst því. Töluorðið hefur þá ekkert nafnorð til að samræmast. Við slíkar aðstæður koma lýsingarorð, töluorð og óákveðin fornöfn fram í hlutlausu kyni, sem er hvorugkyn.

Við segjum margt fór úrskeiðis, sumt er óskiljanlegt, eitt er víst o.s.frv. Þarna er ástæðulaust að leita að einhverju hvorugkynsorði sem „vanti“ í setninguna til að skýra hvorugkynið. Sagnfylling getur bara samræmst nefnifallsfrumlagi og sagnfylling með aukafallsfrumlagi stendur því í hvorugkyni, óháð kyni frumlagsins – honum er kalt og henni er hlýtt. Sama máli gegnir þegar frumlagið er setning – setningar hafa ekkert kyn og því fáum við sagnfyllingu í hvorugkyni, Að þetta skyldi fara svona var leiðinlegt. Við segjum því klukkan er tvö vegna þess að það er eini möguleikinn – málkerfið leyfir ekkert annað. Töluorðið vísar ekki til frumlagsins, hefur þar með ekkert til að samræmast, og hlýtur að koma fram í hlutlausu kyni – hvorugkyni.