Sviðsmyndir

Orðið sviðsmynd er ekki ýkja gamalt í málinu – elsta dæmi sem ég hef fundið um það er frá 1950. En það er áberandi í umræðunni um þessar mundir – svo áberandi að mörgum þykir nóg um og amast við því að talað sé um mismunandi sviðsmyndir í þróun covid-19, í efnahagsmálum, í framhaldi jarðhræringa, o.fl. Mér sýnist að þær athugasemdir sem fólk hefur við þetta orð séu einkum af fernum toga. Í fyrsta lagi að orðið sé ofnotað; í öðru lagi að til séu önnur og heppilegri orð til að ná þeirri merkingu sem um er að ræða; í þriðja lagi að sviðsmyndir eigi heima í leikhúsum en ekki utan þeirra; í fjórða lagi að um sé að ræða hráa yfirfærslu úr ensku; og í fimmta lagi að um sé að ræða misskilning á merkingu enska orðsins senario. Skoðum nú þessar athugasemdir aðeins.

Það er auðvitað smekksatriði hvort orðið sviðsmyndir er ofnotað. Enginn vafi er á því að notkun þess hefur stóraukist að undanförnu, en það stafar að verulegu leyti af aðstæðum í þjóðfélaginu. Það er svo mikil óvissa á mörgum sviðum að sérfræðingar eru sífellt að reyna að átta sig á hugsanlegum sviðsmyndum. Að þessu leyti má e.t.v. bera þetta saman við orðið sóttkví sem hefur margfaldast í tíðni – ekki vegna þess að það sé eitthvert tískuorð, heldur vegna þjóðfélagsaðstæðna. Munurinn er hins vegar sá að sóttkví á sér engan keppinaut, en í sumum tilvikum væri vissulega hægt að nota annað orð en sviðsmynd, og sjálfsagt að hafa það í huga.

Bent hefur verið á ýmis orð sem eru fyrir í málinu og mörgum finnst eðlilegra að nota en sviðsmynd til að tjá þá merkingu sem um er að ræða – orð eins og aðstæður, atburðarás, möguleikar, spálíkan, útkoma og eflaust fleiri. Vissulega kæmi til greina að nota einhver þessara orða í stað sviðsmyndar í sumum tilvikum, en merking þeirra á samt ekki alltaf við. Með spálíkani er t.d. yfirleitt átt við spá um ferli og atburðarás er lýsing á ferli, en sviðsmynd er heildstæð lýsing á stöðunni sem skapast á mismunandi stigum ferlisins eða að því loknu. Mér finnst sviðsmynd vera hentugt og lýsandi orð – það er verið að draga upp mynd af sviðinu. Orðið hefur verið notað í þessari merkingu undanfarin 20 ár og því unnið sér nokkra hefð.

Orðið sviðsmynd er vissulega komið úr leikhúsmáli, en þeim sem halda því fram að ekki eigi að nota það í öðru samhengi sést yfir að hvers kyns líkingar og myndhverfingar eru einn grundvallarþáttur tungumálsins – það úir og grúir af þeim allt í kringum okkur. Við tölum um fjallsöxl, vegaxlir og axlir á flösku; hamarshaus, haus á nagla og bréfhaus; háls í landslagi og flöskuháls; hjarta borgarinnar; lungu heimsins; og svo mætti lengi telja. Það er ekki heldur þannig að sviðsmynd sé eina orðið úr leikhúsmáli sem er notað í líkingum eða myndhverfingum – við segjum að eitthvað hafi gerst bak við tjöldin, að tjaldabaki eða fyrir opnum tjöldum. Ef við höfnum því að orð séu tekin úr bókstaflegri merkingu sinni og notuð í líkingum eða myndhverfingum erum við að amast við skapandi og frjórri málnotkun.

Það er vissulega rétt að umrædd notkun sviðsmyndar er hliðstæð notkun orðsins scenario í ensku og sennilega komin þaðan. En þess eru ótal dæmi að sömu líkingar og myndhverfingar komi fyrir í mörgum tungumálum. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Ef um skyld mál er að ræða getur líkingin átt rætur í sameiginlegri formóður málanna. Það er líka algengt að líkingar og myndhverfingar flytjist milli mála með þýðingum eins og væntanlega er í þessu tilviki. En svo geta líka sömu líkingar og myndhverfingar komið upp í mörgum tungumálum án þess að bein tengsl séu á milli, einfaldlega vegna þess að þær liggja beint við. Erlendur uppruni eða erlendar hliðstæður eru því ekki næg ástæða til að hafna líkingu eða myndhverfingu sem nýtir íslensk orð og samræmist íslenskum aðstæðum.

Því hefur verið haldið fram að notkun orðsins sviðsmynd í umræddri merkingu stafi af misskilningi á enska orðinu scenario sem hafi tvær merkingar í ensku – annars vegar 'sviðsetningarhandrit (óperu, kvikmyndar o.s.frv.)' og hins vegar 'framtíðarmynd (í spá), framtíðarsýn; möguleg atburðarás, ímyndaðar aðstæður'. Íslenska orðið sviðsmynd hafi hins vegar aðeins fyrri merkinguna. Það má vissulega til sanns vegar færa ef aðeins er tekið mið af orðabókarskýringum. En þegar að er gáð er seinni merkingin ekki gömul í ensku, heldur talin hafa bæst við um 1960. Íslenska orðið er því að bæta við sig nýrri merkingu á sama hátt og það enska hefur gert, og sú merkingaraukning virðist ekki vera ýkja mikið yngri en hjá enska orðinu – elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa notkun orðsins sviðsmynd er í þýðingu frá því um 1980.