Atviksorð á lausu
Í gær var spurt í Facebook-hópnum Málspjall hvort ætti að segja hvað skulda ég þér mikið? eða hversu mikið skulda ég þér? Ég svaraði því til að hvort tveggja væri rétt en það síðara væri formlegra, og ég myndi alltaf nota það fyrra í venjulegu tali. En út frá þessu fór ég að velta þessum setningagerðum svolítið fyrir mér. Þarna er spurnaratviksorð, hvað/hversu, sem stendur með lýsingarorði, mikið. Eitt af hlutverkum atviksorða er einmitt að standa með lýsingarorðum og ákvarða þau nánar. Því hlutverki gegna t.d. feitletruðu atviksorðin í setningunum hann er ferlega leiðinlegur; það er skelfilega ljótt að sjá þetta; þetta er hrikalega sætt barn.
En eitt af því sem er óvenjulegt í íslenskri setningagerð er að (sum) slík atviksorð er hægt að slíta frá lýsingarorðinu og láta þau standa fremst í setningunni í staðinn: ferlega er hann leiðinlegur; skelfilega er ljótt að sjá þetta; hrikalega er þetta sætt barn. Merkingin er sú sama, en e.t.v. er meiri áhersla á atviksorðinu þegar það stendur fremst. Þetta er útilokað að gera í skyldum málum s.s. dönsku og ensku; *forfærdelig er han kedelig og *terribly he is boring eru alvondar setningar. En reyndar gildir þetta ekki um öll atviksorð – það er miklu síðra eða jafnvel útilokað að segja *frekar er hann leiðinlegur, eða *dálítið er ljótt að sjá þetta, eða *mjög er þetta sætt barn.
Svipað er á ferðum í áðurnefndum setningum með hvað og hversu. Í hversu mikið skulda ég þér? stendur spurnaratviksorðið með lýsingarorðinu sem það á við, en í hvað skulda ég þér mikið? er það slitið frá því. Það er eins og hvað og hversu hafi þarna með sér ákveðna verkaskiptingu – það er vissulega hægt að segja hvað mikið skulda ég þér? en hversu skulda ég þér mikið? hljómar svolítið undarlega. Það má bera þetta saman við verkaskiptingu mjög og mikið í dæmum eins og mikið/*mjög held ég að þær séu góðar þar sem atviksorðið er slitið frá lýsingarorðinu og ég held að þær séu mjög/*mikið góðar þar sem það stendur með því.
Þetta vissi ég fyrir. En þegar ég fór að velta þessu fyrir mér í gær áttaði ég mig á því að það er ekki alltaf hægt að slíta hvað frá lýsingarorðinu á þennan hátt. Það er í góðu lagi að segja bæði hvað er hún gömul? og hversu gömul er hún?, hvað er hann stór? og hversu stór er hann? – en hins vegar er aðeins hægt að segja hversu góð er hún?, varla *hvað er hún góð?, og hversu leiðinlegt er þetta?, varla *hvað er þetta leiðinlegt? Í fljótu bragði sýnist mér að til þess að hægt sé að nota hvað og slíta það frá lýsingarorðinu þurfi að vera hægt að beita einhverjum hlutlægum mælikvarða á lýsingarorðið – árum, sentimetrum o.s.frv. Þetta gangi ekki ef lýsingarorðið felur í sér huglægt mat.
Þetta hafði ég aldrei hugsað út í áður og kannski er þetta bara misskilningur eða rugl í mér – en ég held samt ekki. Ég lagði setningarnar hérna að ofan fyrir konuna mína (án þess að segja eftir hverju ég væri að fiska) og spurði m.a. hvort væri hægt að segja hvað er hún góð? Hún velti þessu fyrir sér og sagði svo já – t.d. góð í íþróttum. En þar er einmitt hugsanlegt að beita hlutlægum mælikvarða á merkingu lýsingarorðins. Hugsið ykkur hvað tungumálið er undursamlegt – sama hvað maður pælir mikið og lengi í því, maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt.