skíra og vígja

Iðulega er bent á að grunnmerking sagnanna skíra og vígja sé kristileg – skíra merki 'gefa (e-m) nafn með kristilegri athöfn' og vígja merki 'lýsa trúarlega helgi yfir (e-ð) með vígsluathöfn' svo að vitnað sé í Íslenska nútímamálsorðabók. Það er hins vegar algengt að sagnirnar séu notaðar um veraldlegar athafnir og talað um að skíra skip, skíra hús, vígja brú, vígja hús o.s.frv., án þess að nokkur kirkjunnar maður komi þar nálægt eða um nokkra helgiathöfn sé að ræða. Íslensk nútímamálsorðabók gefur reyndar einnig merkinguna 'taka (e-ð) í notkun í fyrsta sinn' fyrir vígja, og Íslensk orðabók nefnir merkinguna 'gefa nafn' í skíra en tekur fram að hún sé óformleg.

Þessi notkun sagnanna er ekki ný – það hefur tíðkast a.m.k. síðan á seinni hluta 19. aldar að skíra skip og vígja brýr. Það er í sjálfu sér mjög skiljanlegt að merkingin hnikist til á þennan hátt. Nafngjöf er órjúfanlegur þáttur skírnarinnar og eðlilegt að mörgum finnist hún vera aðalþátturinn – hin augljósa breyting sem verður við skírnina er að barnið er komið með nafn. Sömuleiðis er eðlilegt að fólki finnist kynningin á einhverju nýju mannvirki vera aðalatriðið í vígslunni, fremur en að verið sé að helga mannvirkið. En það er reyndar ekki alltaf augljóst hvaða sögn ætti að nota í stað vígja.

Þegar um er að ræða hagnýtt mannvirki – brú, veg, jarðgöng, hús – má oft tala um að opna eða taka í notkun. Listaverk er oft hægt að afhjúpa – en ekki alltaf ef um útilistaverk er að ræða. Þegar hinn stórmerki grjóther Sigurðar Hansen á Haugsnesgrundum í Skagafirði var kynntur lenti ég í miklum vanda með að finna sögn sem ætti við. Það var ekki hægt að segja að grjótherinn yrði opnaður, því að hann var aldrei lokaður; ekki hægt að segja að hann yrði tekinn í notkun, því að hann er ekki notaður í venjulegum skilningi; ekki hægt að segja að hann yrði afhjúpaður, því að hann hafði aldrei verið hulinn; og ekki mátti segja að hann yrði vígður, því að ekki var um neina helgiathöfn að ræða.

Það eru ekki síst kirkjunnar menn sem amast við þessari merkingarbreytingu sagnanna skíra og vígja, og vilja halda í einkarétt kirkjunnar á þessum sögnum. Í ljósi þess að kirkjan heldur því mjög á lofti hversu náin tengsl hennar séu við íslenska tungu fyndist mér eiginlega að hún ætti fremur að fagna því þegar orð sem eru upprunnin í kirkjulegu máli fá almennari merkingu. Þessi notkun sagnanna veldur engum misskilningi og hefur tíðkast svo lengi að það hlýtur að vera komin hefð á hana.