Þykkvbæingar

Ég sá nýlega orðið Þykkvbæingur notað nokkrum sinnum í frétt á vefmiðli. Það lék enginn vafi á merkingunni – það var verið að tala um íbúa í Þykkvabæ. En þessi orðmynd kom mér samt svolítið á óvart – ég hefði hiklaust notað myndina Þykkbæingur, án v. Þegar ég fór að skoða þetta á tímarit.is kom í ljós að báðar myndirnar er þar að finna, en v-lausa myndin er þó nokkrum áratugum eldri og hátt í fjórum sinnum algengari en hin. En eru báðar þessar myndir góðar og gildar?

Ég skrifaði nýlega pistil um viðskeytið -ingur og benti á að oftast gerir það þá kröfu að orðið sem það tengist sé stytt niður í tvö atkvæði. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfjörðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; og svo mætti lengi telja. En yfirleitt er grunnorðið klippt sundur á orðhlutaskilum og ef slík skil eru ekki fyrir hendi er krafan um tvö atkvæði stundum brotin, eins og í Ólafsfirð-ingur, Jökuldæl-ingur o.fl.

Báðar myndirnar, Þykkbæingur og Þykkvbæingur, falla að þessari meginreglu – bæði Þykk og Þykkv eru eitt atkvæði. Það má líka færa rök fyrir því að klippa orðið hvort heldur er á undan eða eftir v-inu. Orðið þykkur er svonefndur wa-stofn sem merkir að v var viðskeyti sem var hluti stofnsins en féll þó brott við ákveðnar hljóðfræðilegar aðstæður. Nefnifall veikrar beygingar í karlkyni var þykkvi og því heitir sveitin Þykkvibær. Nú hefur beygingin breyst þannig að v er alveg horfið úr henni – við segjum hinn þykki, ekki hinn þykkvi. Eldri beygingin helst þó í heitinu Þykkvibær eins og algengt er.

Það eru skil á undan v í þykk-v-i vegna þess að v er viðskeyti, og það eru líka skil á undan i vegna þess að i er beygingarending. Þess vegna má færa rök fyrir því að klippa grunnorðið á hvorum staðnum sem er eins og áður segir. En í fornu máli féll v brott í beygingu orðsins þykkr á undan u og einnig á undan samhljóðum og í enda orðs. Sterka beygingin í eintölu var þannig þykkrþykkvanþykkumþykks í karlkyni en þykkþykkva þykkriþykkrar í kvenkyni. Vegna þess að næsti orðhluti, , hefst á samhljóði, ætti v því að falla brott samkvæmt þessum reglum. Þykkvbæingur er í raun hliðstætt við að sagt væri *Reykjvíkingur.

Þýðir það að Þykkbæingur sé rétt mynd en Þykkvbæingur röng? Ekki endilega. Í fyrsta lagi er reglan um það hvenær v fellur brott og hvenær það fær að standa ekki lengur lifandi í máltilfinningu okkar. Vegna þess að v er horfið úr öllum beygingarmyndum orðsins þykkur er alveg hugsanlegt að málnotendur – sumir hverjir a.m.k. – skynji engin orðhlutaskil á undan v í Þykkvi. Sé svo er myndin Þykkvbæingur sú sem við er að búast. Í öðru lagi skiptir hefðin auðvitað máli. Þótt Þykkbæingur sé mun algengari mynd eins og áður segir er enginn vafi á því að myndin Þykkvbæingur hefur verið töluvert notuð áratugum saman. Báðar myndirnar hljóta að teljast réttar.

En auk þessara tveggja mynda er myndin Þykkvabæingur einnig til, þótt hún sé sjaldgæfari en hinar samkvæmt tímarit.is. Þar er brotin meginreglan um að á undan -ingur komi aðeins tvö atkvæði – Þykkvabæ- er þrjú. Sú regla á sér reyndar ýmsar undantekningar eins og áður segir en þær virðast helst koma fram þegar málnotendur skynja engin orðhlutaskil milli annars og þriðja atkvæðis. Vegna þess að v er alveg horfið úr beygingu lýsingarorðsins þykkur er hugsanlegt að málnotendur skynji þykkva- sem eina heild frekar en sem beygingarmynd af þykkur. Einnig er hugsanlegt að málnotendum finnist hinar myndirnar tvær óheppilegar – Þykkvbæingur af hljóðfræðilegum ástæðum og Þykkbæingur vegna þess að með brottfalli v verði tengslin við Þykkvabæ ekki nógu ljós.