-ingur

Viðskeytið -ingur, sem oft er notað til að mynda íbúaheiti sem leidd eru af staðanöfnum, er dálítið skemmtilegt. Oft er því nefnilega ekki bætt beint við stofn staðaheitisins sem um er að ræða, heldur heimtar það að heitinu sé breytt á ákveðinn hátt. Þetta þekkjum við auðvitað vel. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfrðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; Selfoss + ingur verður ekki *Selfossingur, heldur Selfyssingur; og svo mætti lengi telja.

Í þessum dæmum koma fram tveir helstu fylgifiskar viðskeytisins -ingur. Annars vegar er það krafan um styttingu grunnorðsins – það má yfirleitt ekki vera meira en tvö atkvæði. Ef það er lengra er það oftast stytt. Það sem er klippt brott er oftast beygingarending, eins og -ja- í Reykjavík, -ar- í Hafnarfjörð-; en stundum eitthvað meira, eins og -ár- í Sauðárkrókur og -ung-ar- í Bolungarvík. Stundum fær þó grunnorðið að vera meira en tvö atkvæði, eins og t.d. Ólafsfirðingur, Þistilfirðingur, Jökuldælingur – þessi orð verða ekki *Ólfirðingur, *Þistfirðingur, *Jökdælingur. Hugsanlega er það vegna þess að aðeins sé hægt að klippa burt ákveðna orðhluta og málnotendur skynji ekki -afs-, -il- og -ul- sem afmarkaða hluta orðanna.

Þurfi að stytta grunnorðið er það venjulega gert með því að klippa innan úr því – upphaf þess og endir haldast yfirleitt eins og dæmin hér að framan sýna. Það er þó ekki algilt. Þannig verður Snæfellsnes + ingur ekki *Snænesingur, heldur SnæfellingurÞingeyjarsýsla + ingur verður ekki *Þingsýslingur, heldur ÞingeyingurRangárvallasýsla + ingur verður ekki *Rangsýslingur, heldur Rangæingur. Hins vegar er til Rangvellingur, en það er af Rangárvellir. En svo verður að gæta þess að -ingur-orðin geta verið leidd af öðrum grunnorðum en lítur út fyrir í fljótu bragði. Þótt Mosfellingur merki núna ‘íbúi í/frá Mosfellsbæ’ er orðið upphaflega leitt af Mosfelli í Grímsnesi.

Hitt megineinkenni þessarar orðmyndunar er sérhljóðabreyting í grunnorðinu – > i í Hafnfirðingur, o > y (i) í Selfyssingur, ó > æ í Sauðkrækingur o.fl. Þessi hljóðbreyting er ættuð frá svonefndu i-hljóðvarpi sem var virk hljóðregla á samgermönskum tíma og hefur skilið eftir sig ýmsar menjar í beygingum og orðmyndun. Það er þó ekki alltaf augljóst hvernig eigi að beita i-hljóðvarpi í orðmyndun, t.d. í orðum sem enda á -vogurKópavogur, Djúpivogur o.fl. Ein leið er að hafa sérhljóðið óbreytt – segja Kópvogingur og Djúpvogingur. Þetta virðist þó ekki vera algengt. Hins vegar bregður myndunum Kópvægingur og Djúpvægingur einnig fyrir. Það byggist á því að -vo- er komið af -vá- í fornu máli, og æ er i-hljóðvarpshljóð af á.

Orðið Akurnesingur hefur oft valdið fólki heilabrotum. Það brýtur regluna um að grunnorðið sé ekki meira en tvö atkvæði, og þar að auki lítur það út fyrir að vera myndað af Akurnes, ekki Akranes. Á þessu er málsöguleg skýring. Í fornu máli voru ýmsir samhljóðaklasar sem enda á r leyfilegir – orð eins og maður, hestur, akur o.m.fl. voru maðr, hestr, akr. Þegar -ingur var bætt við Akranes kom þá ekki út *Akranesingr heldur Akrnesingra-ið var fellt brott vegna kröfunnar um styttingu grunnorðs í tvö atkvæði. En seinna breyttust hljóðskipunarreglur málsins þannig að margir samhljóðaklasar með r gengu ekki lengur, heldur var skotið inn u til að brjóta þá upp – maðr varð maður, hestr varð hestur, akr varð akur – og Akrnesingr varð Akurnesingur.