Jón

Jón er algengasta karlmannsnafn málsins að fornu og nýju. Þetta er biblíunafn, komið af Jóhannes – eitt fjölmargra nafna sem komu inn í málið með kristninni. Fyrsti Íslendingurinn sem bar þetta nafn svo að vitað sé var Jón Ögmundsson Hólabiskup sem var fæddur um miðja 11. öld, þannig að nafnið hefur verið í málinu í þúsund ár. Samt sem áður hefur það ekki lagað sig að fullu að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Það hefur sem sé enga nefnifallsendingu, eins og karlkynsorð með þessa stofngerð hafa annars, eins og sjá má á orðunum prjónn, spónn, þjónn, sónn, tónn. Tvö þau síðastnefndu eru tökuorð sem koma fyrir án nefnifallsendingar í elstu heimildum, í myndunum són og tón, en bættu fljótlega við sig endingu.

Það hefði því mátt búast við að Jón yrði *Jónn, en svo varð ekki, þrátt fyrir tíðni nafnsins – eða kannski einmitt vegna hennar. Það er alþekkt að algengustu orð málsins komast miklu frekar en önnur upp með ýmiss konar óregluleik í beygingu. Þetta má t.d. sjá á persónufornöfnum og ábendingarfornöfnum, á orðinu maður, á lýsingarorðum eins og margur, mikill, lítill, á sterkum sögnum, o.fl. Ástæðan er væntanlega sú að við lærum þessi orð svo snemma og heyrum þau svo oft að hinar óreglulegu myndir greypast í minnið – við þurfum aldrei að beita almennum reglum til að reikna beyginguna út. Óregluleg beyging á hins vegar í vök að verjast í sjaldgæfari orðum eins og ær og kýr – þar höfum við tilhneigingu til að beita almennum reglum.

En þótt Jón hafi ekki aðlagast málkerfinu þrátt fyrir langa sögu í málinu gegnir öðru máli um nýrri orð með sömu stofngerð. Árið 1879 birti Þjóðólfur grein um hugvitsmanninn Edison og helstu uppfinningar hans. „Meðal þeirra eru merkastar: telefóninn, fónografinn og míkrofóninn.“ Þarna eru orðin telefón og míkrófón án nefnifallsendingar, og sama gildir um þau örfáu dæmi um telefón sem sáust á prenti næstu 20 árin. En árið 1900 birtist fyrsta dæmi um nefnifallsmyndina telefónn, og sú mynd festist fljótt í sessi – míkrófónn er miklu sjaldgæfara orð og sú mynd sést ekki fyrr en 1927. Nefnifallsmyndin grammófón sést fyrst 1906, en myndin grammófónn birtist 10 árum síðar. Öll þessi orð, telefónn, grammófónn og míkrófónn, laga sig því að íslensku málkerfi á mjög stuttum tíma – öfugt við Jón.

Það er þekkt að nöfn lúta oft sérstökum lögmálum og haga sér ekki endilega eins og önnur orð í málinu. Það birtist greinilega í því að Jón hefur ekki lagað sig fullkomlega að málkerfinu á þúsund árum, þótt tíðni nafnsins geti einnig spilað þar inn í eins og áður segir. En vegna þess að nöfn eru þannig afmarkaður hluti orðaforðans þarf hegðun þeirra ekki endilega að hafa áhrif á hegðun annarra orða. Þótt algengasta karlmannsnafn málsins væri óaðlagað öldum saman kom það ekki í veg fyrir að ný orð með sömu stofngerð löguðu sig að málkerfinu á fáum árum. Þetta bendir til þess að ótti margra við óheft innstreymi erlendra mannanafna sé ástæðulaus – það sé engin ástæða til að ætla að erlend nöfn, jafnvel þótt þau lagi sig ekki að íslensku málkerfi, hafi áhrif út fyrir nafnaforðann, út í almennan orðaforða.