Tungumál á Íslandi

Það á aldrei að vera sjálfgefið að nota annað tungumál en íslensku á Íslandi – og íslenskt táknmál, ef því er að skipta. Ef okkur finnst sjálfsagt að geta ekki notað íslensku við einhverjar aðstæður er hætt við að við verðum andvaralaus gagnvart því að umdæmi málsins minnki smátt og smátt þangað til ekki verður aftur snúið. Þess vegna eigum við að ætlast til og gera ráð fyrir að hægt sé að nota íslenskuna alls staðar, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og átta okkur á því að vegna smæðar málsamfélagsins og ýmissa ytri aðstæðna verður stundum að gefa afslátt af þeirri kröfu. En meginatriðið er að vinna að því með öllu móti að gera íslenskuna gjaldgenga á öllum sviðum.

Það er ekkert óeðlilegt að vænta þess að fólk sem flyst hingað til að búa hér um ófyrirsjáanlega framtíð læri íslensku – og ég held að það vilji það flest. Það er ekki síst mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að það geti tekið fullan þátt í þjóðfélaginu, eigi auðveldara með að fá vinnu og verði hluti af samfélaginu. En við megum ekki gera óraunhæfar kröfur til fólksins um fullkomna íslensku, og t.d. ekki dæma fólk sem hefur búið hér um árabil þótt það tali ekki íslensku þegar það kemur fram í fjölmiðlum. Litháísk kona sem býr hér og talar alveg ágæta íslensku (ég hef talað við hana) hefur lýst því að nokkrum sinnum hafi verið tekin viðtöl við hana en ekki birt af því að hún þótti ekki tala nógu góða íslensku.

Það getur verið málefnalegt og eðlilegt að gera kröfu um íslenskukunnáttu við ráðningu í ýmis störf, t.d. þjónustustörf. Íslenska er opinbert mál á Íslandi og fólk á að geta notað hana í samskiptum við starfsfólk í verslunum, á veitingahúsum og víðar. En það þýðir alls ekki íslenskan þurfi að vera fullkomin. Það er allt í lagi að starfsfólkið tali með erlendum hreim, beygi skakkt og orðaforðinn sé takmarkaður, svo framarlega sem kunnáttan dugir því til að gera sig skiljanlegt við dæmigerðar aðstæður í starfinu. Og vitanlega á að meta kunnáttu fólksins í hvert skipti en ekki hafna sjálfkrafa og fyrir fram öllum sem heita framandi nafni eða líta ekki út eins og dæmigerður Íslendingur.

Það er ekki endilega sanngjarnt að vísa til þess að í ýmsum tilteknum löndum fái fólk ekki vinnu nema tala tungumál landsins og ætlast til að sama gildi hér. Fæstir þeirra útlendinga sem hingað koma hafa lært eitthvað í íslensku, og margir þeirra tala mál sem eru fjarskyld íslenskunni og ólík henni. Þótt íslenska sé ekki erfiðara mál en gengur og gerist, öfugt við það sem oft er haldið fram, skipta skyldleiki og líkindi við tungumál málnemans miklu máli í tungumálanámi. Það er miklu auðveldara að gera áðurnefnda kröfu um tungumálakunnáttu í fjölmennari löndum vegna þess að fólk sem þangað kemur er margfalt líklegra til að hafa lært eitthvað í tungumáli þeirra landa – eða tala mál sem er skylt málinu sem þar er talað.

Þetta er mjög viðkvæmt mál sem hefur margar hliðar. Við þurfum að gæta tungumálsins – staða málsins veikist ef aðstæður þar sem íslenska er ekki nothæf verða fjölbreyttari, og ef þeim fjölgar sem finnst eðlilegt að geta ekki notað íslensku við ýmsar aðstæður. Við þurfum að gæta réttinda málhafanna – það eru til margir Íslendingar af eldri kynslóðinni sem treysta sér ekki til að hafa samskipti við aðra á ensku og það þarf að taka tillit til þeirra. Við þurfum að gæta réttinda starfsfólks sem ekki talar íslensku – það hefur verið ráðið í vinnu án þess að gerð hafi verið krafa um íslenskukunnáttu og pirringur viðskiptavina yfir að geta ekki notað íslensku má ekki bitna á því.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.