Börn og samtöl

Seinnipartinn í dag röltum við hjónin niður í bæ og litum inn á listsýningu. Á heimleiðinni stungum við okkur inn á veitingahús og fengum okkur léttvínsglas. Á næsta borði voru hjón með barn, á að giska þriggja eða fjögurra ára gamalt. Allan tímann sem við sátum þarna og sötruðum úr glösunum okkar var barnið með síma í höndunum og horfði sem dáleitt á skjáinn án þess að segja orð – og ég varð ekki heldur var við að foreldrarnir yrtu á það.a

Ég get alveg skilið fólk sem fer með ung börn út í búð á annatíma, þreytt að loknum vinnudegi, og réttir börnunum síma til að hafa frið meðan það verslar. En öðru máli gegnir ef maður fer á kaffihús síðdegis á laugardegi. Þá ætti að vera hægt að slappa af og einmitt upplagt að nota tækifærið til að spjalla við barnið. Ég held að ung börn kunni yfirleitt að meta að þeim sé sýndur áhugi og séu til í að tala við foreldra sína.

Ég er ekki að amast við símanotkun ungra barna út af fyrir sig. Það eru skiptar skoðanir um hana og áhrif hennar og ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu að svo stöddu. Ég er ekki að halda því fram að allt hefði verið miklu betra áður og foreldrar sífellt verið að tala við börn sín. Það var auðvitað upp og ofan eins og nú. Ég er eingöngu að minna á mikilvægi samtalsins fyrir máltöku og málþroska – að talað sé við börn og þeim gefinn kostur á að hlusta á samtöl og taka þátt í þeim.

Ýmsar rannsóknir sýna að ekkert skiptir meira máli fyrir málþroska barna en samtöl við fullorðið fólk. Jafnframt er alltaf að koma betur og betur í ljós að góður málþroski skiptir máli fyrir allan annan þroska – félagsþroska, tilfinningagreind, og jafnvel verkgreind. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar noti allan þann tíma sem mögulegt er til að tala við börnin sín og freistist ekki til að nota síma eða tölvu til að kaupa sér frið nema það sé alveg nauðsynlegt.