Við berum ábyrgð

Nýlega spruttu miklar umræður á ýmsum miðlum af grein sem birtist á Vísi um mikilvægi þess að læra mál landsins sem maður býr í. Þetta er ekki einfalt mál og fólk er fljótt að fara í skotgrafir í þessari umræðu. Íslenska er opinbert mál þjóðarinnar og það er ekkert óeðlilegt að vilja geta notað hana alls staðar á Íslandi. Ef okkur finnst ekkert athugavert við að íslenska sé víkjandi eða ónothæf við ýmsar aðstæður á Íslandi má búast við að við gerum ekkert í málinu og umdæmi íslenskunnar haldi áfram að skerðast. Það má ekki heldur gleyma því að því fer fjarri að allir Íslendingar tali ensku reiprennandi þótt það sé oft látið í veðri vaka. Það er eðlilegt að því fólki mislíki að geta ekki fengið þjónustu á íslensku og finnist það jafnvel utangátta í eigin landi.

Hins vegar skiptir öllu að kröfunni um að geta notað íslensku á öllum sviðum sé beint í rétta átt – að okkur sjálfum. Það erum við sem höfum ekki getað mannað ýmis láglaunastörf með innlendu vinnuafli og verðum því að fá fólk til landsins til að vinna þau störf. Það erum við sem stöndum okkur ekki nógu vel í því að semja hentugt kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga. Það erum við sem bjóðum ekki upp á ókeypis íslenskunámskeið á vinnustöðum og víðar. Það erum við sem gefum fólki ekki tækifæri til að læra íslensku í vinnutímanum. Það erum við sem skiptum alltof oft yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Það erum við sem látum ergelsi okkar yfir því að geta ekki notað íslensku alls staðar bitna á fólki sem ekkert hefur til saka unnið – annað en tala ekki fullkomna íslensku.

Það er skiljanlegt að fólk sem kemur hingað til að vinna í skamman tíma hafi lítinn áhuga á því að setjast við að loknum löngum vinnudegi á lágmarkslaunum að læra tungumál sem er því oft mjög framandi – og borga stórfé fyrir. Ég hef hins vegar trú á því að fólk sem flytur hingað og ætlar sér að vera á Íslandi til frambúðar hafi undantekningarlítið fullan vilja til að læra málið – og leggi sig fram um það. En við þurfum að búa því betri aðstæður til þess, og vera þolinmóðari gagnvart ófullkominni íslensku.