Fyrir bak við

Samböndin fyrir aftan, aftan við og (á) bak við er öll hægt að nota til að tjá sömu merkingu, þótt merking sambandanna falli ekki alveg saman og stundum eigi eitt þeirra við en hin ekki.  Í umræðu um nýju forsetninguna hliðiná kom fram að fólk, a.m.k. börn og unglingar, væri farið að segja fyrir bak við í stað fyrir aftan eða (á) bak við. Ég kannaðist ekki við þetta en gúgl skilaði mér fáeinum dæmum – þeim elstu frá 2005, þannig að þetta er ekki alveg nýtt. Þessi elstu dæmi eru annars vegar í bloggi pilts á framhaldsskólaaldri og hins vegar höfð eftir börnum innan við 10 ára aldur. Ef þetta hefur haldist í máli þessa fólks mætti því búast við að þess væri farið að gæta hjá fullorðnu fólki núna og komast á prent. Á tímarit.is fann ég tvö dæmi, það eldra frá 2013, og í Risamálheildinni fimm til viðbótar, það elsta frá 2010.

Með gúgli fann ég dæmi um eitt afbrigði enn – fyrir aftan við. Um það er eitt dæmi frá 1966 á tímarit.is en líklega er eðlilegt að líta á það sem villu. Næsta dæmi er frá 2008, og örfá svo eftir það. Hin þekktu og viðurkenndu orðasambönd fyrir aftan, aftan við og bak við hafa sem sé getið af sér tvö ný – fyrir aftan við og fyrir bak við. Það síðarnefnda virðist vera töluvert notað, a.m.k. meðal ungs fólks, en ég veit ekki um hitt. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að þessi sambönd blandist saman – fyrst hægt er að segja bæði fyrir aftan og aftan við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir aftan við? Og fyrst hægt er að segja fyrir aftan og bak við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir bak við? Það er svona eins og vera bæði með belti og axlabönd.

Ég hélt fyrst að fyrir bak við væri eingöngu hægt að nota þar sem bæði bak við og fyrir aftan gætu gengið. Ég rakst hins vegar á dæmið „Fólkið sem stendur fyrir bakvið …“ í merkingunni  ‘stendur að’, og í þeirri merkingu er eingöngu hægt að nota (á) bak við, ekki fyrir aftan. Það væri fróðlegt að vita hvort einnig er hægt að nota fyrir bak við þar sem aðeins fyrir aftan en ekki bak við kemur til greina. Það væru t.d. setningar eins og hann stóð næst fyrir aftan mig í röðinni þar sem ekki væri hægt að segja *hann stóð næst bak við mig í röðinni. Ég hef ekki fundið nein dæmi um fyrir bak við í slíkri stöðu, en dæmin um sambandið eru svo fá að það er ekki hægt að draga neinar ályktanir af því að þetta hafi ekki fundist.

Hvað á að segja um fyrir bak við (og fyrir aftan við)? Þetta eru auðvitað óþörf orðasambönd, í þeim skilningi að við höfum í málinu sambönd sem þjóna sama hlutverki og eru auk þess styttri. Þessi sambönd víkja líka frá málhefð sem alla jafna er æskilegt að halda sig við. Ef ég ætti börn á máltökuskeiði myndi ég sjálfsagt reyna að hafa hefðbundnu samböndin fyrir þeim í þeirri (veiku) von að þau legðu fyrir bak við af – og ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemd við fyrir bak við í skrifum nemenda, nema ég væri orðinn sannfærður um að þetta væri orðið mjög útbreitt og á sigurbraut. Hins vegar eru þetta ekki stórfelld málspjöll og engin ástæða til að láta það raska ró sinni eða draga athygli og tíma frá því sem meira máli skiptir.