Já við fjölbreytni - nei við nýjungum?

Oft er lögð áhersla á gildi og mikilvægi þess að hafa góðan orðaforða og tala og skrifa auðugt og blæbrigðaríkt mál – tönnlast ekki alltaf á sömu orðunum og sama orðalaginu, heldur breyta til og orða sömu merkingu á mismunandi hátt. Þessu er ég hjartanlega sammála, og til að stuðla að þessu er mikilvægt að fólk æfist í að nota málið á fjölbreyttan hátt – tali saman og tali við börn, og lesi og skrifi margs konar texta.

En svo er líka oft amast við hvers kyns nýsköpun í máli – nýyrðum smíðuðum úr íslensku hráefni, tökuorðum sem löguð eru að íslensku, fleirtölu orða sem aðallega eða eingöngu hafa verið notuð í eintölu, nýjum orðasamböndum og orðatiltækjum, nýjum merkingartilbrigðum þekktra orða og svo framvegis. Slíkar nýjungar eru iðulega sagðar „ekki til“, afbökun, ljótar, hrá enska, barnamál, rangt mál, óþarfar og ég veit ekki hvað og hvað.

Það undarlega er að það virðist að verulegu leyti vera sama fólkið sem leggur áherslu á góðan orðaforða og blæbrigðaríkt mál og það sem amast við nýjungum í máli. Þetta er fólkið sem telur sig eiga tungumálið, fólkið sem vill að málið sé eins og því var kennt í uppvextinum að það ætti að vera. Þótt margt af þessu fólki vilji vel og athugasemdir þess eigi rætur í umhyggju fyrir íslenskunni er alltof algengt að athugasemdirnar séu settar fram af hroka og yfirlæti þeirra sem þykjast hafa höndlað sannleikann.

Vitanlega er ekki öll nýsköpun jafnvel heppnuð. Sumar nýjungar slá strax í gegn, aðrar eru andvana fæddar, en flestar einhvers staðar þar á milli. En það er eingöngu málsamfélagið sem getur skorið þar úr. Ef það tekur nýjungina upp á sína arma lifir hún, annars ekki. Það þýðir ekki að við sem almennir málnotendur getum ekki haft skoðun á nýjungum, og látið þá skoðun í ljósi. En þá er mikilvægt að við styðjum hana málefnalegum rökum en höfnum nýjungum ekki umsvifalaust á þeim forsendum einum að við ólumst ekki upp við þær.