afbrygðisemi

Í fyrra skrifaði ég pistil um ýmsar breytingar á orðum sem ég taldi stafa af misheyrn, svo sem þegar reiprennandi verður reiðbrennandi og fyrst að verður víst að. Til viðbótar þessum dæmum, sem áður hafði verið bent á, nefndi ég að á netinu hefði ég rekist á nokkur dæmi um afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi fyrir afbrýðisamur og afbrýðisemi. Ég sagði um þessi dæmi: „Þar gegnir sama máli – framburðarmunur í eðlilegu tali er mjög lítill. Önghljóðið g veiklast oft eða hverfur í framburði í þessari stöðu, og hljóðfræðilegur munur i og í (ý) er lítill. Það er því ekkert óeðlilegt að sumir greini orðið ranglega – og skrifi það í samræmi við þessa röngu greiningu.“

Í skýringu orðsins afbrýði í Íslenskri orðsifjabók (undir ábrúðig(u)r) kemur fram að einnig séu til myndirnar ábrýði og afbrygði, og ekki sé víst hvort upphaflegt forskeyti sé á- eða af-. Síðan segir: „Upphaflegt g í síðara lið orðsins hefur fallið niður og valdið uppbótarlengingu, -brugðigr > -brúðig(u)r, -brygði > -brýði.“ Uppbótarlenging er þekkt og algengt fyrirbæri í málsögunni og vísar til þess þegar samhljóð fellur brott en aðliggjandi sérhljóð lengist í staðinn, eins og til að bæta upp fyrir brottfallið. Áður fyrr var lengdarmunur á y og ý, en í nútímamáli felst munurinn ekki í lengd heldur í hljóðgildi, auk þess sem y hefur fallið saman við i og ý við í. En þarna var myndin -brygði komin svo að ég fór að kanna málið nánar.

Í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn er afbrygði aðaluppflettimynd, en afbrýði höfð á eftir. Um þessi orð eru fimm dæmi sem eru skrifuð svo í handritum: afbrygdis (2); af bryþes (1); abbryde (1); af bryþe (1). Auk þess er í safninu gefin uppflettimyndin ábrýði, með spurningarmerki á undan til marks um að hún sé vafasöm. Myndin ábrýði kemur fyrir í kvæði frá seinni hluta 18. aldar – reyndar skrifuð ábríði en þetta er löngu eftir að ý féll saman við í í framburði þannig að stafsetningin segir ekkert. Fáein dæmi eru svo um ábrýði frá síðustu árum 19. aldar og fram undir miðja 20. öld – flest úr vesturíslensku blöðunum. Hún er líka gefin upp í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal og í Íslenskri orðabók.

Af myndinni afbrygði segir ekki aftur fyrr en í upphafi 20. aldar – í blaðinu Bjarka segir árið 1902: „Jesús opinberar oss, að synd og lygar, órjettvísi og eftirlátsemi eigingirninnar sje ónáttúra og afbyrgði hjá manninum.“ Þarna stendur að vísu afbyrgði en það virðist nokkuð ljóst að það sé prentvilla fyrir afbrygði. Árið 1924 er sýning á gamanleiknum Afbrygðissemin auglýst í Vísi og afbrygðissemi kemur fyrir í blaðinu Brautinni árið 1929. Eftir það má finna í blöðum örfá dæmi um nafnorðið afbrigði(s)semi og lýsingarorðið afbrigði(s)samur – öll með i en ekki y, en það segir lítið vegna þess að málnotendur tengja þetta væntanlega ekki við neitt annað og vita því ekki hvort á að nota i eða y.

Athyglisverðasta dæmið er úr grein tveggja lögreglumanna í Morgunblaðinu 1995, þar sem fjallað er um ástæður þess að ofbeldi er beitt. Meðal ástæðna er talin afbrigðisemi. Þetta sýnir að orðið er ekki bundið við óvandaðan eða óprófarkalesinn texta á netinu eins og ég hélt. Það er ljóst að myndin afbrygði kemur fyrir þegar í fornu máli, og frá því í upphafi 20. aldar, en spurningin er hvort hún eigi sér óslitna sögu þar á milli þótt hún hafi ekki ratað á bækur í margar aldir. Sé svo, sem ég hef tilhneigingu til að halda, eiga myndirnar afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi sem ég hélt að ættu rætur í misheyrn eða misskilningi á 21. öldinni sér í raun jafnlanga sögu og afbrýðisamur og afbrýðisemi – þótt strangt tekið ætti að skrifa fyrrnefndu myndirnar með y frekar en i.

Það er í raun stórmerkilegt – en ekki einsdæmi – ef orðmyndir geta lifað í talmálinu í margar aldir án þess að komast á bækur svo að heitið geti. En vissulega er líka hugsanlegt að umræddar myndir hafi orðið til nýlega á þann hátt sem ég taldi í upphafi og séu óháðar eldri samhljóða myndum. Í því máli er erfitt að sanna nokkuð. En ef saga myndanna afbrygðisamur og afbrygðisemi er óslitin frá fornu máli, ættum við þá að viðurkenna þær sem fullgildar orðmyndir í nútímamáli?  Það kæmi auðvitað ekki til greina að hafna afbrýðisamur og afbrýðisemi, þannig að þetta yrðu þá hliðarmyndir. Ég hef svo sem ekki ákveðna skoðun á þessu. Það er ljóst að myndir með afbrygði hafa alla tíð verið sjaldgæfar og spurning hvort hægt sé að segja að hefð sé fyrir þeim, þrátt fyrir að virðist geta verið ættaðar úr fornu máli. En ég hef a.m.k. aðra afstöðu til þessara mynda en áður, og myndi ekki vilja kalla þær rangt mál.