Vegna þess að það er hægt

Nýlega hlustaði ég á fróðlegan útvarpsþátt þar sem margs kyns fatlanir og raskanir bar á góma. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hef stundum séð amast við því að þessi orð séu notuð í fleirtölu, rétt eins og gösin sem mikið hefur verið tuðað um undanfarið. Fyrir nokkrum árum las ég t.d. í málfarspistli: „[…] sum íslensk orð verða alveg galómöguleg í fleirtölu. Til dæmis þráttaði ég lengi við fræðimann um orðið fatlanir. Ég sagði honum að hægt væri að tala um margs konar fötlun eða ýmsar tegundir fötlunar en hann sat við sinn keip og sagði að fleirtölumynd orðsins hefði unnið sér þegnrétt í fræðunum. Hvað sem því líður þykir mér sú mynd orðsins ljót á sama hátt og gösin […].“

Það er auðvitað enginn vafi á því að gös og fatlanir er rétt mynduð fleirtala af gas og fötlun, enda hefur það svo sem ekki verið dregið í efa. Hins vegar hefur því verið haldið fram að fleirtala þessara orða sé „ekki til“, eða þá a.m.k. að hún sé „óþörf“. Það stenst auðvitað enga skoðun. Það hefur verið bent á að fleirtalan gös var notuð þegar á 19. öld, og fleirtalan fatlanir kemur fyrir í upphafi 20. aldar. Það voru bara ekki mikil not fyrir fleirtölu þessara orða til skamms tíma, og þess vegna finnst mörgum hún framandi og telja hana þar af leiðandi ranga. En breyttar aðstæður og breytt viðhorf í þjóðfélaginu valda því að fleirtalan er núna gagnleg og nauðsynleg.

Þetta er fullkomlega eðlilegt. Í pistlinum sem áður er vitnað til er því haldið fram (reyndar ranglega) að orðið búslóð hafi varla tíðkast í fleirtölu fyrr en flytja þurfti búslóðir Vestmannaeyinga til lands í gosinu 1973 og þá hafi fleirtalan skotið upp kollinum, „ýmsum til ama og leiðinda“. En þó ekki öllum: „Prófessor Halldór Halldórsson […] sá ekkert athugavert við þessa orðmynd, benti okkur á að tungumálið væri félagslegt fyrirbrigði og hlyti að taka mið af breyttum aðstæðum í samfélaginu.“ Þetta er einmitt málið. Tungumálið verður að þjóna – og verður að fá að þjóna – því samfélagi sem notar það. Ef samfélagið breytist, eins og það gerir óhjákvæmilega, verður tungumálið að fá að gera það líka.

Auðvitað gætum við haldið áfram að tala um ýmsar gastegundir og margs konar fötlun í stað þess að tala um gös og fatlanir. En hverju værum við bættari? Hvers vegna ekki að nota eðlilega og rétt myndaða fleirtölu sem er miklu liprari? Eigum við að hafna fleirtölumyndunum bara af því að við sem erum á miðjum aldri og eldri þekkjum þær ekki úr æsku okkar og finnst þær þess vegna ankannanlegar og jafnvel ljótar? Ef við gerum það erum við að ráðast á einn mikilvægasta og stórkostlegasta þátt tungumálsins – sköpunarmáttinn. Þennan sköpunarmátt sem við höfum öll á valdi okkar og gerir tungumálinu kleift að endurnýja sig og vera í takt við tímann.

Ein minnisstæðasta sjónvarpsauglýsing seinni ára er sú þar sem Jón Gnarr í hlutverki starfsmanns Prentmets ræddi í símann við viðskiptavin sem lét sér ekki nægja svarið „Nei, það er ekki hægt“ við einhverri spurningu og spurði hvers vegna það væri ekki hægt. Þá var Jóni nóg boðið og svaraði með þjósti: „Vegna þess að það er ekki hægt.“ Mér dettur þetta oft í hug þegar ég sé fólk agnúast út í einhver tilbrigði eða (meintar) nýjungar í málinu. Fyrir því eru oft engin málefnaleg rök, og ef spurt er hvers vegna ekki sé hægt að segja svona verður svarið oft – efnislega – „Vegna þess að það er ekki hægt“.

Látum okkur ekki nægja það svar. Það er nefnilega allt mögulegt hægt.