Rangur misskilningur

Í innleggi í Málvöndunarþættinum á Facebook í gær var tilfærð setningin „ég tala reiðbrennandi ensku“ og spurt „Er reiðbrennandi orð? Hef aldrei heyrt þetta í staðinn fyrir reiprennandi“. Þetta er vissulega sjaldgæft en ekki alveg óþekkt – örfá dæmi um reiðbrennandi má finna á netinu, og á Leiðbeiningavef um ritun á háskólastigi sem ritver Háskóla Íslands standa að er reiðbrennandi í stað reiprennandi eitt þeirra dæma sem nefnd eru um misskilning „um merkingu eða form orða og orðasambanda“. Og það er svo sem ekkert einsdæmi að málnotendur misskilji orð – eða reyni að fá eitthvert vit í orð sem þeir skilja ekki.

Hugtakið alþýðuskýring er oft notað um þetta og þekkt íslenskt dæmi er þegar þröskuldur verður þrepskjöldur. Orðið þröskuldur er skylt sögninni þreskja og merkir sennilega upphaflega „‘þreskitré, þreskifjöl eða gangfjöl’“ segir í Íslenskri orðsifjabók. En þegar tengslin við þreskingu rofna verður þröskuldur óskiljanlegt orð og til að reyna að fá eitthvert vit í það tengja málnotendur það við þrepþröskuldur er auðvitað eins konar þrep í dyrum – og skjöldþröskuldurinn er einhvers konar hlíf.

En hliðstæðar breytingar (eða afbakanir, ef fólk vill kalla það svo) stafa ekki endilega af því að málnotendur séu að reyna að setja eitthvað skiljanlegt í staðinn fyrir eitthvað sem það skilur ekki, heldur af því að þeir greina orðin eða einstaka orðhluta ranglega og tengja við annað en til var ætlast þannig að þeir telja sig heyra aðra orðmynd en sögð var – en hljóðfræðilega mjög líka. Þetta gerist helst í orðum sem eru ekki gagnsæ, og einkum í löngum orðum eða orðum sem bera venjulega litla áherslu í setningu.

Myndin reiðbrennandi í stað reiprennandi er gott dæmi um þetta. Í eðlilegu tali er mjög lítill framburðarmunur á þessum myndum. Enginn munur er á b og p í þessari stöðu, og ð fellur oft að mestu eða öllu leyti brott í framburði samhljóðaklasa eins og þarna. Málnotendur þekkja orðið reið betur en reip(i), átta sig ekki á líkingunni, og greina orðið rangt. Það þýðir ekki endilega að reiðbrennandi sé eitthvað skiljanlegri mynd fyrir þá sem nota hana en reiprennandi.

Ýmsan annan hliðstæðan misskilning mætti nefna. Á netinu má finna nokkur dæmi um afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi í staðinn fyrir afbrýðisamur og afbrýðisemi. Þar gegnir sama máli – framburðarmunur í eðlilegu tali er mjög lítill. Önghljóðið g veiklast oft eða hverfur í framburði í þessari stöðu, og hljóðfræðilegur munur i og í (ý) er lítill. Það er því ekkert óeðlilegt að sumir greini orðið ranglega – og skrifi það í samræmi við þessa röngu greiningu.

Eitt þekktasta dæmi af þessu tagi er þegar víst að kemur í stað samtengingarinnar fyrst () – Ég fer víst að hann ætlar ekki að koma í stað Ég fer fyrst að hann ætlar ekki að koma. Reyndar er fyrst ein þeirra samtenginga sem oft er kennt að ekki eigi að taka með sér , en það er þó mjög algengt a.m.k. í talmáli. Framburðarmunur á víst og fyrst er mjög lítill, a.m.k. í áhersluleysi eins og þarna er oftast um að ræða – bæði v og f eru tannvaramælt önghljóð, hljóðfræðilegur munur i og í er lítill eins og áður segir, og r fellur oft brott að miklu eða öllu leyti í klasanum rst.

Eins og áður segir kemur misskilningurinn upp vegna þess að framburðarmunur er mjög lítill. Þess vegna er alveg hægt að hugsa sér tvo menn sem tala oft saman og annar segir alltaf reiprennandi en hinn alltaf reiðbrennandi og hvorugur tekur eftir því að hinn er með aðra mynd orðsins – bæði vegna þess hve framburðarmunurinn er lítill, og eins vegna þess að við höfum tilhneigingu til að heyra það sem við eigum von á að heyra. Munurinn kemur hins vegar í ljós þegar farið er að skrifa orðin.

Og þá kemur að því sem ég hef nefnt áður: Eitt af því sem hefur breyst í íslensku málumhverfi á undanförnum áratugum er að nú sjáum við texta frá miklu stærri og fjölbreyttari hópi málnotenda en áður. Til skamms tíma sá venjulegt fólk sjaldnast texta frá öðru venjulegu fólki, nema helst í sendibréfum, en nú skrifar hver sem er fyrir allan heiminn. Þess vegna kemur misskilningur af þessu tagi oftar í ljós nú en áður, án þess að dæmum um hann hafi endilega fjölgað.

Það er þess vegna vel hugsanlegt að myndir eins og reiðbrennandi, afbrigðissamur/-semi, víst að og ýmsar fleiri hafi komið upp fyrir löngu án þess að nokkur hafi tekið eftir þeim, af því að við verðum varla vör við þær nema í rituðu máli og þeir sem áður skrifuðu texta sem kom fyrir almenningssjónir höfðu lært hvernig þessi orð ættu að vera.