Máltækniáætlun hafin

Í ársbyrjun birtist á mbl.is viðtal við upplýsingafulltrúa Símans sem kynntur var sem „áhugamaður um tækni og nýjungar“. Hann taldi að 2019 yrði „árið sem fjarstýringin deyr og að raddstýringin taki alveg yfir“, árið „þar sem venjuleg heimili byrja að horfa til tækninnar“. Hann hélt áfram: „Það sem stendur uppbyggingunni helst fyrir þrifum byrjar og endar á raddstýringu og við þurfum alltaf að tala ensku. Ég er með lása, perur og fjarstýringar hjá mér og þarf alltaf að tala ensku“ segir upplýsingafulltrúinn sem „játar að það geti verið þreytandi“.

Viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Eitt það mikilvægasta og gagn­legasta sem við getum gert til að styrkja stöðu íslenskunnar er því að gera átak á sviði íslenskrar máltækni.  Máltækni gerir okkur kleift að hafa sam­skipti við tölvurnar, og nýta þær á ýmsan hátt til að liðsinna okkur við tungumálið. Í gær urðu þau tímamót að skrifað var undir samning milli sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms, sem falin hefur verið framkvæmd máltækniáætlunar ríkisstjórnarinnar, og SÍM, samstarfshóps um íslenska máltækni. Aðild að hópnum eiga Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Blindrafélagið, Ríkisútvarpið, og fjögur fyrirtæki: Creditinfo-Fjölmiðlavaktin ehf, Grammatek ehf, Miðeind ehf og Tiro ehf.

Samkvæmt samningnum, sem er til eins árs með möguleika á framlengingu í eitt ár í senn allt að fjórum sinnum, tekur SÍM að sér rannsóknar- og þróunarvinnu vegna máltækniáætlunarinnar í samræmi við verkáætlunina Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 sem lögð var fram árið 2017. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er ákvæði um að þessari áætlun skuli hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Samstarfshópurinn mun vinna að fimm kjarnaverkefnum sem skilgreind eru í verkáætluninni. Þetta eru:

  • Talgreining — hugbúnaður til vélrænnar greiningar á töluðu íslensku máli
  • Talgerving — hugbúnaður  til að gera fullkomna íslenska talgervla
  • Vélþýðingar — hugbúnaður til þýðinga milli íslensku og annarra mála
  • Málrýni — hugbúnaður til að lesa yfir og lagfæra ritaðan íslenskan texta
  • Málföng — uppbygging mállegra gagnasafna af ýmsu tagi, s.s. orðasafna, textasafna, hljóðsafna

Þessi kjarnaverkefni eru forsenda þess að til verði margvíslegur notendahugbúnaður sem geri íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi. Í íslenskri málstefnu sem  samþykkt var á Alþingi vorið 2009 er í kafla um íslensku í tölvuheiminum (sem ég samdi reyndar) sett það markmið

  • Að íslensk tunga verði nothæf — og notuð — á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings.

„Þetta merkir í fyrsta lagi að viðmót algengs hugbúnaðar (valmyndir, hjálpartextar o.s.frv.) þarf að vera íslenskt; í öðru lagi að til þarf að vera ýmiss konar hugbúnaður sem liðsinnir og leiðbeinir notendum við notkun íslensks máls (leiðréttingarforrit, þýðingarforrit, hjálparforrit fyrir fatlaða); og í þriðja lagi að unnt á að vera að nota íslensku sem samskiptamál við ýmiss konar tölvu- og tæknibúnað (upplýsingakerfi, þjónustuver, tölvustýrð tæki af ýmsu tagi).“

Ég fagna þessum samningi sérstaklega. Allt frá 1997, þegar ég hélt erindi um Informationsteknologien og små sprogsamfund á norrænum málnefndaþingi í Þórshöfn í Færeyjum (birt í Sprog i Norden 1998), hef ég talað fyrir því að við gerðum átak á sviði máltækni (sem þá var reyndar nefnd tungutækni) til að íslenska drægist ekki aftur úr öðrum tungumálum á þessu sviði. Ég hef tekið þátt í að skrifa ýmsar skýrslur um efnið og oft vonast til að eitthvað færi að gerast í málinu en þær vonir hafa ekki ræst — fyrr en nú. Með samningnum sem undirritaður var í gær er stigið stórt skref til að uppfylla markmið málstefnunnar á þessu sviði og tryggja að við getum notað íslensku í samskiptum okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í.