Enska sem hluti af íslensku málsamfélagi
Í gær birtist í Stundinni mjög áhugaverð grein sem m.a. fjallar um málefni sem við verðum að sinna betur: Íslenskukennslu og íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna – fólksins sem að verulegu leyti hélt uppi góðærinu á undanförnum árum. Ef við gerum ekki betur á þessu sviði er mikil hætta á að hér verði til mjög lagskipt þjóðfélag, með lítt menntaðri lágstétt sem hefur íslensku ekki almennilega á valdi sínu og er föst í láglaunastörfum. Það er stórhættuleg þróun – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir þjóðfélagið, fyrir lýðræðið, og fyrir íslenskuna.
Í umræðu sem spratt af því að ég setti hlekk á þessa grein í hópinn Málspjall á Facebook nefndu tvær erlendar konur sem búa hér að þeim fyndist íslenskan oft notuð til að mismuna fólki og halda því niðri – ekki bara í þjónustustörfum, heldur einnig í ýmsum sérhæfðum störfum t.d. á sviði viðskipta og tækni. Það skyti skökku við að sækjast eftir kunnáttu fólks og sérfræðiþekkingu og hreykja sér af því að stuðla að og fagna fjölbreytileika en ýta fólki samt út á jaðar umræðunnar og samfélagsins vegna skorts á íslenskukunnáttu. Þetta er alveg rétt.
Við viljum geta notað íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins en það má ekki bitna á fólk sem býr hér og starfar en kann ekki málið til fulls. Við þurfum að horfast í augu við það að sú krafa að geta notað íslensku alltaf, við allar aðstæður, er ósamrýmanleg virkri þátttöku í tæknivæddu þekkingarsamfélagi á tímum alþjóðavæðingar og frjáls flæðis vinnuafls og getur leitt til þess að við lokum okkur af og einöngrumst. Við þurfum að átta okkur á því að enskan er komin til að vera í samfélaginu og það er óhjákvæmilegt að hún verði hér fyrirferðarmikil í framtíðinni, samhliða íslensku.
Þetta er engin uppgjöf – þetta er staðreynd. Það er ekki íslenskunni til framdráttar að berja hausnum við steininn og neita að viðurkenna þetta. Enskunotkun á Íslandi má ekki vera feimnismál eins og ég hef stundum á tilfinningunni að hún sé. Enskan er alþjóðamál, gífurlega mikilvægt hjálpartæki sem gerir okkur kleift að taka þátt í margs kyns alþjóðlegu samstarfi og sækja okkur þekkingu og sérhæfingu. Hún er ekki óvinur eða eitthvað sem við þurfum að hræðast – en við þurfum að hefja öfluga og markvissa umræðu um það hvaða hlutverk og stöðu við ætlum henni í málsamfélaginu.
Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?
Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax. Ég kann ekki svarið við neinni af framangreindum spurningum – og er ekki viss um að nokkurt svar sé til, a.m.k. varla svar sem öllum líki. En svörin eru ekki aðalatriðið, heldur umræðan, umhugsunin og vitundarvakningin um þetta. Núna fljótum við nefnilega sofandi að feigðarósi og vöknum upp við það einn daginn að við höfum ekki lengur neina yfirsýn yfir stöðuna, hvað þá stjórn á henni. Látum það ekki gerast.