Upp á sett

Í Kastljósi í gær var Kári Stefánsson spurður hvort hann teldi að lögmenn fólks sem sat nauðugt í sóttvarnarhúsi hefðu gert það „upp á sett“ að skila greinargerðum svo seint að sóttkví skjólstæðinga þeirra yrði runnin út þegar málið kæmi fyrir Landsrétt. Kári hváði og virtist ekki skilja sambandið upp á sett. Út frá þessu varð mikil umræða í hópnum Málspjall á Facebook. Fyrir sumum – þ. á m. mér – er þetta venjulegt mál, en í umræðunni kom í ljós að sambandið virðist vera fáum kunnugt. Í orðabókum virðast engin dæmi um það, og í Risamálheildinni er ekki eitt einasta dæmi. Google fann ekki heldur nein dæmi nema sum þeirra sem eru á tímarit.is en þau virðast aðeins vera átta samtals:

  • Ég hef trassað ögn að svara þér, rétt „uppá sett,“ af því ég sá af „Kringlu,“ að þú brázt þér til Nýja-íslands og bjóst ég við þú mundir, ef til vill, tefja þar nokkuð.
  • En eg get ekki trúað því að þetta sé satt. Eg ímynda mér að Dingaan hafi verið að skrökva þessu upp á sett.
  • Las bæjarstjóri það þá upp og taldi hann, að ég hefði gert þetta upp á sett til þess, að hægt væri að nota málið til árásar á meirihlutann.
  • Á undanförnum árum hefur verið ljóst að Rússar og Bandarikjamenn gera það aðallega upp á sett að vera að deila.
  • „Ég gerði það svona upp á sett að fara í níunda sætið,“ sagði Gunnlaugur Finnsson [...], en á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi um helgina tapaði Gunnlaugur öðru sætinu til Ólafs Þ. Þórðarsonar.
  • Ef Magdalena Schram eða aðrir sem nú sjá sér leik á borði með áróður gegn Flugleiðum halda að flugfélag geri það upp á sett að halda ekki áætlun þá er hún haldin miklum misskilningi.
  • Samt er þessi grein, sem höfundur kallar „Að hlæja upp á sett“ allrar athygli verð, þótt ég kunni ekki við það málfar „að hlæja upp á sett“. Ég held að þetta sé óþörf tiktúra. Þetta heitir á gamalgróinni íslensku að gera sér upp hlátur – látast.
  • Fréttaljósið lýsir á Ólaf Davíðsson forstjóra Þjóðhagsstofnunar og svona uppá sett spyrjum við hvað verðbólgan sé.

Í umræðunni var nefnt að sambandið myndi vera gömul dönskusletta, og það má vel vera – hugsanlega gæti það verið komið af påsat, t.d. í sambandinu påsat brand 'íkveikja', eða átt eitthvað skylt við på sæt og vis. Það er hins vegar athyglisvert að elsta dæmið hér að ofan er úr bréfi Stephans G. Stephanssonar frá 1901 og það næsta úr vesturíslenska blaðinu Lögbergi frá 1912, en svo kemur sambandið ekki fyrir aftur fyrr en 1953, og hin dæmin eru öll frá áttunda áratugnum. Út frá þessu er freistandi að geta þess til að þetta sé úr ensku – það skýri fyrstu tvö dæmin, en svo fari sambandið að sjást á Íslandi með auknum enskum áhrifum eftir stríð. En þetta er bara hugdetta.

En hvað merkir sambandið? Í umræðunni var nefnt að það merkti 'af ásettu ráði', og það má til sanns vegar færa – sú merking á vel við notkun þess í Kastljósinu í gær. En ég held að það sé fleira í þessu. Ég held að merkingu sambandsins sé best lýst með 'setja upp leiktjöld / leikmynd'. Leiktjöld eru sett upp til að eitthvað sé á sviðinu – en þau geta líka verið sett upp til að fela eitthvað sem áhorfendur eiga ekki að sjá. Það sem er gert upp á sett er stundum gert án ástæðu, „af því bara“, en stundum er það gert til að breiða yfir eitthvað. Ég held að dæmin hér að ofan staðfesti þennan skilning. Orðið sett bendir líka til leikhúsmáls.